152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugaverð spurning hjá hv. þingmanni. Ég tel m.a. að þessi nýja heimild sem verið er að setja inn í lögin um að útlendingayfirvöld fái heimild til að afla heilbrigðisgagna sé m.a. til að leggja mat á þetta, en hvort viðkomandi einstaklingar hjá Útlendingastofnun séu til þess bærir að leggja mat á þetta veit ég ekki. En það sem gerir þetta auðvitað verra er að þetta á t.d. ekki við um fólk sem á að endursenda til Grikklands, þessi undanþága um fólk sem getur ekki einu sinni séð um sig sjálft, eins og hv. þingmaður kom hérna inn á. Það er undanskilið ef það tilheyrir þeim hópi flóttamanna sem kemur hingað eftir að hafa fengið vernd í Grikklandi þar sem þeir geta einmitt ekki nálgast lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu með áreiðanlegum hætti; barnshafandi konur, fólk með fötlun, allir þessir hópar, börn sem eru þarna undanskilin til þess að, ég veit það ekki, leyfa einhverjum sálum í VG að sofa aðeins betur á nóttunni. Þetta á ekki við um fólk sem er að koma frá Grikklandi eða Ungverjalandi eða Búlgaríu eða hvað það er, þessi lönd sem eru nú þegar túlkuð sem örugg upprunaríki. Algjörlega burt séð frá matinu, hver eigi að meta það, þá nýtur allt þetta varnarlausa fólk ekki áfram þessarar þjónustu vegna þess að það kemur frá svokölluðu öruggu upprunaríki eins og Grikklandi eða Ítalíu. Þar af leiðandi skiptir kannski engu máli hver metur það í tilfelli þess, það verður hvort eð er ekki einu sinni metið. Það skiptir það engu máli. Það verður ekkert mál að senda fólk til Grikklands sem getur ekki séð um sig sjálft.