152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:24]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er svona nokkurn veginn það sem ég var að meina í minni ræðu, að það væri, held ég, til bóta. Miðað við tölurnar sem ég hef séð um umfang umsókna frá ríkjum þar sem fólk er með vernd nú þegar, af heildinni, getur þetta ekki verið það íþyngjandi að þetta sé ekki eitthvað sem sé alla vega hægt að láta reyna á. Svo er náttúrlega hægt að reikna út — við erum með hlutfall samþykktra umsókna, af þeim sem fá efnismeðferð. Við getum kannski gert ráð fyrir að svipað hlutfall eða mögulega lægra fái samþykki af þeim sem hafa fengið vernd nú þegar, það er bara hægt að reikna út hvað þetta myndi aukast um, það er mismunandi á milli ára hvað við sjáum fyrir okkur að samþykktum umsóknum myndi fjölga um, þetta eru í mesta lagi 50%. Þá er ég náttúrlega að miða við t.d. árið í fyrra en í Úkraínu er nú gert ráð fyrir verulegri aukningu í þessum efnum. Af því að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir nefndi sérstaklega börn þá gleymdi ég náttúrlega minnast á að það er náttúrlega ekkert tillit tekið til barna, ef börn eru inni í myndinni. Það er t.d. það sem samtök á borð við Barnaheill og UNICEF hafa verið að benda á. Er ekki lágmark að taka alla vega tillit til þess þegar fólk er búið að rífa sig upp, tekur börnin sín með sér og kannski búið að koma sér fyrir á einhvern hátt? Er ekki lágmark að taka tillit til þess?