152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er með tvær vangaveltur en vil fylgja eftir þessu: Er ekki lágmark að við lítum svo á að barn sé í eðli sínu alltaf í viðkvæmri stöðu? Ég myndi segja: Jú. Ég myndi segja að það sé algjört lágmark að líta svo á að barn á flótta með foreldrum sínum, barn sem ekki hefur húsaskjól, hefur ekkert öryggi frá degi til dags sé í eðli sínu í afskaplega viðkvæmri stöðu. Það er algerlega ómannúðleg aðstaða fyrir barn að vita ekki um sinn næturstað og hafa ekkert öryggi. Það er fullkomlega óboðleg aðstaða, þannig að það er í eðli sínu alltaf í viðkvæmri stöðu. Það á sérstaklega að huga að því barni og ekki vísa því á brott til aðstæðna sem eru óboðlegar með öllu, í yfirfullar flóttamannabúðir, af því að það er einhver skilgreining um að þar sé eitthvert öryggi. Það er aldrei öryggi fyrir barn að vera í flóttamannabúðum. Og við skulum ekki heldur gleyma því að langsamlega flestir flóttamenn eru í nágrannaríkjum þess ríkis þar sem stríð eða náttúruhamfarir eða eitthvað viðlíka á sér stað. Langflestir flóttamenn frá Sýrlandi flúðu yfir til Jórdaníu eða annarra ríkja. Það er þannig líka að fólk með börn kemur langsjaldnast alla leið til Íslands. Þú leggur ekkert á börnin þín að fara alla þessa leið. Þannig að maður veltir fyrir sér hvort við ættum ekki bara að setja sérstakt ákvæði í lög um útlendinga sem hefur miklu meiri tryggingu fyrir börn.