152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[22:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég segi man ég svo vel, vegna þess að ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd þegar frumvarpið var til meðferðar síðast, hversu mikið púður fór í að fjalla um þetta atriði. Þá lá líka fyrir mjög greinargóð og vönduð umsögn frá Rauða krossinum þar sem maður sá að þar fór saman fagþekking og skilningur á eðli og aðstæðum þessa fólks en líka yfirgripsmikil þekking á lögunum, hvernig hægt er að beita þeim og hvernig þeim hefur verið beitt og hvernig þeim hefur ekki verið beitt. Það getur verið ákveðin blinda á málaflokk. Mér fannst ég merkja það í umræðunni hér fyrr í kvöld hjá stjórnarliða þegar hann rýndi í það hvernig einhver regla hljómar þegar sú regla er í reynd dauður bókstafur, þegar henni er aldrei beitt. Það þarf auðvitað að geta lesið lögin í samhengi við reynslu þeirra sem þekkja framkvæmdina.

Ef þetta er svona, sem ég dreg auðvitað ekki í efa, eins og hv. þingmaður er að lýsa þá þætti mér það vera áhyggjuefni líka því að ég held að það hljóti að skipta máli í fyrsta lagi að meta sögu fólksins sem hingað kemur og hvort það eigi erindi inn í þennan rann sem verndarkerfið er en um leið hvað við erum viljug til að teygja okkur langt í því hvert fólk á að fara, ef það er orðin alheilög regla að ekkert verði litið til fólks sem fengið hefur vernd annars staðar. Satt best að segja situr þetta atriði enn þá í mér frá umfjölluninni síðast. Það var ýmislegt annað sem hefur reyndar komið fram, m.a. í ræðu hv. þingmanns en ekki síður t.d. í ræðu hv. þingkonu Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þar sem maður áttar sig á því að það er sitthvað undir. En þetta finnst mér bara svo mikil prinsipp-afstaða.