152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja það upp með mér hver staðan er á þessu máli núna hvað varðar talsmannaþjónustuna. Ég hef líka skilið Rauða krossinn þannig að þjónustan þar felist í breiðari þjónustu en eingöngu berstrípaðri þjónustu lögmannsins. Það þekkir hv. þingmaður líka. Það er allur gangur á því hversu viljugir lögmenn eru og hversu flinkir, hversu færir í mannlegum samskiptum þeir eru til að takast á við bara andlit og margar hliðar lögmennskunnar. Það á svo sem við um alla málaflokka. Lögmaður getur verið flinkur í skilnaðarmáli vegna þess að hann er góður í að tala við fólk á meðan annar er betri í göllum í fasteignakaupum eða hvað það nú er. Mér fannst það mjög tragískt að heyra það að þarna ætti í nafni skilvirkni að kippa þessari reynslu og þekkingu úr sambandi þegar ég held að það sé borðleggjandi að það muni leiða til verri þjónustu (Forseti hringir.) og lengri málsmeðferðartíma.