152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla fyrst segja að ég lít ekki svo á að Útlendingastofnun sé alveg undanskilin allri gagnrýni eða umfjöllun, ég átti við að mér hefur fundist stundum vanta upp á að litið sé á hina pólitísku ábyrgð.

Varðandi talsmannakerfið þá hlýtur það að hafa verið áhyggjuefni að undirbúningstíminn fyrir þessar breytingar var lítill sem enginn, þannig að þarna er töluverður fjöldi mála sem er í óvissu vegna þess að Rauði krossinn stóð í þeirri trú, eftir því sem fram kemur í fjölmiðlum, einhverjum vikum áður en það lá fyrir að það ætti ekki að framlengja samninginn, að það yrði framlenging á honum eða a.m.k. útboð. (Dómsmrh.: … fjóra mánuði.) — Já, fjórir mánuðir. En við þekkjum nú málsmeðferðartíma, það næst ekki að klára öll þau mál sem eru í gangi, sem eru þarna, á fjórum mánuðum. En mér finnst áhugavert að heyra að hæstv. ráðherra líti svo á að það sé ekki að verða grundvallarbreyting hvað varðar þau atriði sem hér voru til umfjöllunar, þ.e. aðstæður þess fólks sem komið er með alþjóðlega vernd — ég hegg eftir því að ráðherrann notar orðasambandið „virk vernd“. Það verður áhugavert að fylgjast með umsögnum um málið í kjölfarið.