152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Það er nákvæmlega þetta: Viljum við vera hluti af lausninni? Ég ætla aftur að vitna til orða hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, sem spurði mig: Vill Samfylkingin þá bara opna landamærin? Viljið þið þá bara hleypa öllum inn og veita öllum vernd? Auðvitað er það ekki þannig. Það er skrýtið að heyra þessa setningu koma úr þessum ranni. Ég hefði trúað þingmanni Miðflokksins til að spyrja svona af því að þeir eru bara með allt öðruvísi stefnu í þessum málaflokki en við. Það er eðlilegt að svona spurning komi þaðan. Það er skrýtið að svona spurning komi frá þingmanni stjórnmálaflokks sem alla jafna gefur sig út fyrir að vera félagshyggjuflokkur sem hefur mannúð og mannréttindi að leiðarljósi. Það hefur aldrei verið talað um að galopna eigi landið fyrir öllum. Það er ekki þannig og það hvarflar ekki að neinum. En við viljum leggja okkar af mörkum og vera hluti af lausninni. Það er miklu dýrara, ef maður fer aftur í peningana, það eru svo margir sem skilja ekki mannúð og þá verð ég að tala um þetta út frá peningum, að gera hlutina svona brjálæðislega illa, miklu kostnaðarsamara fyrir ríkissjóð að standa svona illa að málum. Það hefur miklu meiri kostnað í för með sér fyrir allt kerfið og er ekki skynsamlegt.