152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þetta bara allt í lagi? Auðvitað er það ekki í lagi að við afnemum öll mannréttindi fólks sem kemur hingað í leit að vernd, að sjálfsögðu ekki. Það er ekkert í lagi. En ef fólk er að beita fyrir sig ákveðnum atriðum, segir t.d. að undanþáguákvæði eigi við um sig, þá held ég að það hvíli ákveðin sönnunarbyrði á einstaklingnum í því. Einstaklingurinn þarf þá að færa sönnur fyrir því en það á ekki að vera þannig að stjórnvöld geti kallað eftir öllum mögulegum upplýsingum. Við höfum séð alls konar ruddaskap í gangi. Það var alveg hörmulegt hvernig farið var með þessa þunguðu konu sem við höfum verið að tala aðeins um hér í kvöld sem var gengin 36 vikur. Hennar lífi var stefnt í hættu, hún var látin ferðast í 19 klukkutíma á síðustu dögum meðgöngunnar. Það er auðvitað svakaleg meðferð. Samkvæmt landlækni voru lög þverbrotin, það var niðurstaðan. Og hvað gerðist við það? Ef við værum annars staðar á Norðurlöndunum hefði ráðherrann fokið „med det samme“, það er bara þannig. En á Íslandi leyfist bara alls konar svona framkoma gagnvart fólki í mjög viðkvæmri stöðu. Varðandi það að fella niður þjónustu þá vitum við alveg hvað það þýðir. Ekki er hægt að senda einstakling í burtu til ríkis sem vill ekki taka á móti honum og ef enginn samningur er í gildi þá endar viðkomandi bara á bekk hér fyrir utan og (Forseti hringir.) fer svo einhvern veginn að reyna að sjá sér farborða, ekki með því að ráða sig í vinnu í einhverjum Íslandsbanka.