152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu.

[15:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Verðbólgan rís og er farin að bíta fólkið í landinu alvarlega. Bæði launþegar og fyrirtæki bíða núorðið eftir ákvörðunum Seðlabankans með kvíðahnút í maga og frekari hækkanir eru í kortunum. Í umræðunni er mikill fókus á stjórntæki Seðlabankans og ákvarðanir hans, en minni fókus á stjórn ríkisfjármálanna, á þá staðreynd að ef stjórnvöld sýna ekki ábyrgð og nálgast ríkisfjármálin af skynsemi er viðbúið að vextir muni hækka enn frekar með alvarlegum afleiðingum fyrir fólkið í landinu.

Gylfi Zoëga hagfræðingur bendir á að útgjöld ríkisins vaxi umfram skatttekjur ríkisins og það er reikningsdæmi sem allir sjá að gengur ekki upp. Heimilin í landinu gætu ekki leyft sér að eyða alltaf umfram tekjur. Við afgreiðslu fjárlaga í desember var gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði rekinn með tæplega 170 milljarða halla þetta árið. Það er þungur tími fram undan fyrir ríkið og allan almenning í landinu, kjarasamningar í skugga verðbólgu og vaxtahækkana. Í tengslum við verðbólgu og vaxtahækkanir hefur hæstv. fjármálaráðherra talað um að það þurfi að vanda sig í opinberri fjármálagerð og áætlanagerð til næstu ára. Við erum hreinskilin, og við verðum að vera það, um að staðan er auðvitað að hluta til innflutt. Við erum að tala um heimsfaraldur sem þurfti að bregðast við með kostnaðarsömum aðgerðum og gera upp efnahagsáhrif hans. Mótvægisaðgerðirnar eru kostnaðarsamar og sumar hverjar beinlínis þensluhvetjandi. Það er mikið áhyggjuefni.

Ég spyr, í ljósi fyrri orða hæstv. fjármálaráðherra um að það þurfi að vanda sig, hvar hæstv. fjármálaráðherra sjái fyrir sér að stíga á bremsuna. Hvaða varnargarð ætlar fjármálaráðherra að reisa fyrir hengjunni sem við stöndum nú þegar í skugganum af?