Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Utanríkismálanefnd átti einstaka heimsókn til Tallinn og Helsinki í síðustu viku og vart hægt að finna aðra eins tímasetningu fyrir fund nefndarinnar að fara erlendis og hitta á það sem við hittum á. Við byrjuðum á þriðjudeginum og hittum utanríkismálanefnd eistneska þingsins og utanríkisráðherra Eistlands og áttum síðan góðan fund í netöryggismiðstöðinni, öndvegissetri netöryggismála NATO í Tallinn. Síðan var hin stóra stund á miðvikudagsmorgni þegar við funduðum með utanríkismálanefnd Finna. Þar var fullsetinn bekkurinn og í 17 manna nefnd finnsku utanríkismálanefndarinnar voru mættir 16 af 17 sem þótti einstakt og sýndi hversu mikilvægt þeim fannst að íslenska utanríkismálanefndin mætti til þeirra á þessum stóra degi, sem var dagurinn sem Finnland sótti formlega um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, í NATO. Við þekkjum þetta ferli og þessa miklu umræðu. Einnig fundaði nefndin í öndvegissetri um fjölþáttaógnir sem er staðsett í Helsinki og er samstarfsverkefni NATO og Evrópusambandsins. Þetta voru einstakir fundir og það var augljóst að Finnum var létt eftir þessa ákvörðun. Samdægurs sóttu einnig Svíar um inngöngu í NATO. Það er ljóst að utanríkismálastefna Norðurlandanna og NB-8, þar sem Norðurlandaþjóðirnar og Eystrasaltsríkin eru í samstarfi, mun breytast mikið við inngöngu Finna og Svía í NATO og þetta þurfum við að skoða í okkar samhengi. Ég fagna umsóknum þessara vinaþjóða okkar í NATO sem mun skipta okkur gríðarlega miklu hér í norðanverðri Evrópu á komandi árum.