Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir hér á, að í meðförum þingsins var gerð breyting á 17. gr. laga um húsnæðisbætur. Hins vegar er í 4. tölulið, að mig minnir, í 30. gr. sömu laga heimild fyrir ráðherra til að gera breytingu á skerðingarhlutföllum, þannig að samkvæmt því er lagaheimild til staðar. Þetta ræddum við talsvert í nefndinni. Ég tel, vegna þess að það hefur verið 11% skerðingarhlutfall í framkvæmd frá árinu 2020, sé eðlilegt að halda því inni líkt og gert er í bráðabirgðaákvæði 2. En svo gæti það alveg verið framtíðarmál að hv. velferðarnefnd taki þetta mál til sérstakrar skoðunar, en ég tel að sú umræða eigi ekki heima hér í þessu máli sem snýst um það að koma til móts við fólk sem er að verða fyrir barðinu á verðbólgunni.