Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Jú, stundum koma að sjálfsögðu upp vandamál sem þarf að bregðast hratt við. Þá reynum við að sjálfsögðu að gera það af ákveðinni varfærni, tvímælalaust. En allt of oft er samt unnið með hraði þó að ekki sé nauðsyn til þess. Það má segja um þetta mál að það hafi verið dálítið fyrirsjáanlegt í þó nokkurn tíma. Í morgun fengum við í efnahags- og viðskiptanefnd í hendurnar mál sem var skrifað á einum degi í ráðuneytinu. Við sendum stór mál til umsagnar í bara eina viku, sem eykur líkurnar á því bara almennt séð að umsagnaraðilar geti ekki gefið eins nákvæmar umsagnir og þeir kannski vildu, sem eykur þá líkurnar á að eitthvað sleppi fram hjá og sé eitthvert vesen með. Það er allt of oft sem það gerist og er afleiðing af því hvernig stjórnmál eru stunduð hérna á þingi, hvernig það er alltaf ákveðin gíslataka á málum meðal stjórnarflokkanna meira að segja sem taka mál í gíslingu sín á milli, sem verður til þess að samhliða því er aldrei lokið við að semja um hvernig mál klárast fyrr en undir lok þings af því þá er bara kominn tímapressa á að við verðum að fara að gera eitthvað. Það er aldrei unnið jafnóðum í því að klára mál á einhvern málefnalegan hátt. Það endar alltaf í einhverri tímapressu, það gerist óhjákvæmilega vegna þeirra fjölda mála sem þá eru komin í hendurnar á okkur, það er bara ekki mögulegt að allir geti farið yfir allt. Það er alltaf verið að samþykkja einhver frumvörp hérna upp á von og óvon um að það séu ekki villur í þeim, möguleikinn á því er til staðar af því að það hefur ekki verið farið nægilega vel í þau því að þau koma fram of seint og allt þetta.