Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða breytingar á lögum um almannatryggingar, mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu. Hugsið ykkur, við erum búin að vera að hlusta á ræður núna í upp undir hálftíma og allur almenningur og við öll hérna í salnum erum miklu nær um hvernig þetta kerfi virkar. Er það ekki? Við vitum allt um kerfið núna. Af hverju ættum við að vita allt? Jú, vegna þess að við vitum að verið var að breyta einhverju úr 11% í 9% og ef við hefðum ekki gert þetta alveg nákvæmlega orðrétt þá hefði það getað farið í gömul lög og sett þetta kerfi á hliðina, liggur við. Og hvað segir það okkur raunverulega? Það segir okkur að við erum með svo arfavitlaust kerfi að það er eiginlega gjörsamlega fáránlegt að við skulum vera með eldri borgarana okkar og okkar veikasta fólk inni í svona kerfi. Það er svo mikil óvirðing að hafa fólk í kerfi sem er svo illa unnið og orðið svo bútasaumuð vitleysa að það er eiginlega ekki fyrir nokkurn mann að reyna að skilja hana. Þess vegna segi ég það að paradís á jörðu fyrir þetta fólk væri að komast út úr þessu kerfi. En hvað þarf einstaklingur, ellilífeyrisþegi eða öryrki sem er kominn á ellilífeyri eða eitthvað, sem vill hafa tekjur, að gera til þess að sleppa út úr þessu kerfi? Jú, ég kíkti á það; það þarf rúmlega 640.000 kr. á mánuði í greiðslur frá lífeyrissjóðum t.d. Þá ertu sloppinn út úr kerfinu og það hlýtur að vera algjört himnaríki vegna þess að Tryggingastofnun var að senda út frá sér — vegna þess að eins og ég hef oft bent á þá er 1. júní uppgjörsdagur, skelfing fyrir suma, gleði fyrir aðra. Á heimasíðu Tryggingastofnunar er bent á að það eru um 25.000 einstaklingar sem eiga inneign, sem er auðvitað frábært, og það er sérstaklega tekið fram að flestir fá undir 37.000 kr. í endurgreiðslu. En síðan kemur það furðulegasta: 32.000 einstaklingar fá skerðingar en þar er ekkert getið um hvert meðaltal þeirra skerðinga er sem viðkomandi einstaklingar fá. Að lifa inni í þessu kerfi og verða fyrir því t.d. að fá svona skerðingarupphæðir — og ég hef sjálfur reynslu af því að fá skilaboð inn um lúguna hjá mér: Núna færð þú þessar skerðingarupphæðir og skerðingarnar eru upp á 100%. Þú færð ekkert borgað frá Tryggingastofnun ríkisins í heilt ár. Þið getið ímyndað ykkur, maður með börn og heimili, nýkominn úr aðgerðum, veikindum og öðru, og þarf að horfa á þessa staðreynd. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að maður lendi í þeirri aðstöðu? Jú, málið var mjög einfalt. Rétt áður hafði ég fengið eingreiðslu úr lífeyrissjóði, afturvirkt, sem gerði það að verkum að ég gat nokkurn veginn verið á núlli. En ég þekkti ekki kerfið. Ég áttaði mig ekki á því að kerfið myndi refsa mér grimmilega fyrir það að hafa ekki haft borð fyrir báru og tekin megnið af þessari eingreiðslu og haft hana tilbúna til að endurgreiða Tryggingastofnun ríkisins.

Í þessu lendir fólk ítrekað og þess vegna er eiginlega ömurlegt að við séum hér að reyna að koma í gegn frumvarpi upp á 3% — 3% hækkun í nær 8% verðbólgu. Öryrkjabandalagið hefur reiknað það út og segir að að meðaltali muni 3% skila 8.400 kr. fyrir skatt til stærsta hópsins. Það þýðir rétt um 5.000 kr. eftir skatt. Og eins og ég benti á áður og mér var bent á af einstaklingi sem er nýbúinn að fá hækkun á húsaleigu upp á 17.000 kr., þá duga 5.000 kr. lítið. Það vantar 12.000 kr. upp á. Þess vegna höfum við í Flokki fólksins aðeins reynt að gefa í og fara að tillögu Öryrkjabandalagsins þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Frá 1. apríl sl. er greiddur 10.500 kr. hagvaxtarauki á taxta og mánaðarlaun, þ.á.m. lágmarkslaun. Með því eykst enn kjaragliðnunin margumrædda milli örorkugreiðslna og lágmarkslauna. Þeirri þróun verður að snúa við.“

Með 4,5% hækkuninni sem við erum að boða hefði það skilað 12.590 kr., sem hefði þá alla vega stoppað þessa kjaragliðnun og jafnvel verið smá hungurlús eftir fyrir þennan hóp. En ríkisstjórnin hefur boðað það alveg skýrt frá upphafi að þau muni ekki stöðva kjaragliðnunina, hún muni aukast. Þeir ætla sér alls ekki að sjá til þess að það fólk sem lifir í þessu kerfi, sérstaklega þeir verst settu, geti lifað með einhverri reisn og haft þann möguleika að sjá sér farborða.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir var að tala um barnabætur áðan. Barnabætur eru frábærar fyrir þá sem eru með börn og það er bara alveg frábært að þeim skuli vera hjálpað og við mættum gera það miklu meira. En á sama tíma gleymast alltaf einstaklingarnir. Það eru einstaklingarnir þarna úti sem eru í verstri stöðu, einstaklingar á leigumarkaði, einstaklingar sem eru að kaupa, það er verst stadda fólkið, vegna þess að það þarf að standa undir öllum þessum kostnaði sjálft. Við gleymum því alltaf að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þessir einstaklingar fái eitthvað. Ég spurði einmitt einstaklinginn sem var með 17.000 kr. hækkunina og 5.000 kr. hækkunina og þá vantaði 12.000 kr., hvort það myndi eitthvað duga honum að fá 90.000 kr. eingreiðslu. Þá kom svarið bara alveg um leið: Jú, það myndi þá vonandi halda honum á floti þangað til í haust þegar þeir eru búnir að lofa að endurskoða almannatryggingakerfið. En ég benti þá á móti á að því miður væri ekki neitt í hendi heldur einhvers staðar í skógi vegna þess að það væri ekki reiknað með krónu, hvorki á fjárlögum, fjárauka né í fjármálaáætlun, í að endurskoða almannatryggingakerfið. Hæstv. félags- og vinnumálaráðherra hefur viðurkennt að það á ekki að setja krónu inn í það en það gætu komið einhverjar krónur til baka vegna minnkandi skerðingar.

Við erum búin að hlusta núna á hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fara yfir skerðingarnar: 9%, 7%, ráðherrar eða ekki ráðherrar, hvernig við erum búin að flækja þetta kerfi fram og til baka. Við verðum að fara að taka þessar skerðingar burt. Við verðum að einfalda þetta vegna þess að við gleymum því oft í tali okkar um tölur, skerðingar, lög og reglur að það er fólk á bak við þetta. Það er fólk þarna úti sem horfir á okkur og biður um það, það biður ekki um mikið, það biður bara um mannsæmandi framfærslu. Það biður um að þurfa ekki að vera skelfingu lostið fyrsta dag júnímánaðar á hverju ári vegna þess að það veit ekki hvort það fær endurgreitt, sem 25.000 manns fá, eða hvort það þarf að borga til baka, sem 32.000 manns þurfa að gera. Þú veist ekki í hvorum hópnum þú ert, en við vitum öll hvorum hópnum hver einasti maður myndi vilja tilheyra. Þess vegna verðum við að sjá til þess að hætta að leika með tilveru þessa fólks og einfalda kerfið strax og sjá til þess að þetta fólk geti lifað með reisn. Að ráðherra hafi heimild til skerðingar er auðvitað aldrei gott en það var vilji löggjafans að koma því þannig fyrir. En þá eigum við að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að svo sé ekki. Okkur ber líka að taka tillit til þess — við erum, eins og bent var á þá var sett inn ákvæði á sínum tíma, Flokkur fólksins fór í mál út af því þegar það gleymdist að setja inn skerðingarhlutföll fyrir lífeyristekjur. Að tekjur frá lífeyrissjóðum séu ekki teknar sem venjulegar tekjur er auðvitað fáránlegt vegna þess að stór hluti af því eru tekjur og stór hluti af fjármagnstekjur. En ef það á að meðhöndla það eins og ríkisstjórnin vill þá geta þeir á sama tíma nýtt sér það að frítekjumörk tekna gilda ekki um lífeyrissjóðstekjur. Það eru eingöngu 25.000 kr., þar er frítekjumark. Og á hverjum bitnar það mest? Eins og ég hef oft bent á eru það konur. Við getum bara lesið um það í frumvarpinu þar sem stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar og samkvæmt skýrslu starfshóps um kjör aldraðra frá desember 2018 kemur fram að af þeim íbúum 67 ára og eldri sem búa við lökust kjör eru 60–70% konur.“

Einhvers staðar hefði þetta átt að hringja viðvörunarbjöllum, hjá femínistum, og fólk hefði átt að hugsa með sér: Bíddu, af hverju lemjum við ekki í borðið? Á ekki að vera jafnræði? En einhverra hluta vegna látum við svona hluti viðgangast ár eftir ár, áratugum saman. Einhvern veginn erum við búin að búa til almannatryggingakerfi sem enginn er ánægður með og endalaust er verið að bútasauma og bæta, sem veldur — ja, enginn veit hverju. Við getum sett plástur á einn endann á þessu kerfi en þá blæðir út hinum megin. Viðkomandi átti að fá plásturinn til að hjálpa sér og stöðva blæðingar á einum stað.

Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll endurskoða kerfið og við eigum að fara í endurskoðaðun með það fyrir augum að — eins og ég sagði hér og kom fram á fundi með Öryrkjabandalaginu um kjaramál, sem var mjög góður þar sem kom skýrt fram hversu gríðarleg kjaragliðnun er orðin, 120.000 kr. á mánuði, þá er persónuafslátturinn ekki tekinn inn. Þar kom líka skýrt fram að það er eiginlega ekki nokkur leið fyrir nokkurn einstakling að átta sig á kerfinu og hann getur ekki leitað sér neinna upplýsinga um það í sjálfu sér hvaða rétt hann á í kerfinu vegna þess að það er einhvern veginn innbyggt í þetta kerfi og það hefur verið gert það flókið að það á enginn, held ég, að skilja það. Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að þetta væru einhver mistök sem hefðu þróast þannig og það væri vilji til að breyta því. En þessi fimm ár sem ég er búinn að vera hérna á þingi er búið að tala stanslaust um að breyta almannatryggingakerfinu. Og jú, því var breytt á sínum tíma fyrir eldri borgara og einfaldað að ákveðnum hluta. En gagnvart öryrkjum hefur því ekki verið breytt. Ég tel að sú breyting sem er áætluð muni ekki skila sér. En ég styð þessar 3% hækkun. Flokkur fólksins leggur fram tillögu um að við reynum að hafa þetta 4,5%. Kostnaðaraukinn af því er sáralítill. Ég efast um að þeir geti hengt sig á að þetta muni kosta of mikið og að það muni hafa einhver áhrif á verðbólgu eða á annan hátt á fjármál ríkisins. En þá myndum við alla vega sýna það að við erum tilbúnir til að láta þennan hóp fá nákvæmlega það sama og vinnumarkaðurinn hefur verið að fá og stöðva kjaragliðnun sem hefur verið við lýði undanfarið. Þannig að með þessu mun ég greiða þessu frumvarpi atkvæði. Ég mun styðja allar þær góðu tillögur sem hafa komið hérna fram.

Ég er líka sammála því að það er svolítið skrýtið þegar við ræðum þessa tillögu hérna að það skuli ekki vera sett neitt til atvinnulausra einstaklinga. En þarna er samt líka mismunað, og það er í anda ríkisstjórnarinnar. Þeir sem eru í neðsta flokknum eru þeir sem eru með búsetuskerðingar. Síðan eru þeir sem eru miðjuflokknum sem eru í neðra þrepinu og síðan koma þeir koll af kolli; þeir sem eru eru atvinnulausir og svo koma lágmarkslaunin. Það er einhvern veginn eins og verið sé vísvitandi að reyna að spyrða þessa hópa saman þannig að við skulum ekki — og það held ég að sé einmitt grundvallarspurningin: Ef við ætlum að endurskoða kerfið, koma á nýju kerfi, þá verðum við að byrja á því að finna rétta framfærslu, grunnframfærslu þess að einstaklingur geti lifað mannsæmandi lífi hér á landi. Hvers vegna höfum við ekki gert það? Ég spyr mig: Hvernig stendur á því? Vegna þess að ég veit að þetta var reynt. Það var hæstv. ráðherra á sínum tíma, Guðbrandur Hannesson, ef ég man þetta rétt, sem kom kom með útreikninga á þessu og þeir voru inni á vef ráðuneytis hans í smátíma. En ég man að það var eiginlega í fyrsta skipti sem maður var ánægður með að það væri eitthvað rétt útreiknað og komið fram með það. En það var auðvitað rifið strax út vegna þess að til að koma þessu á þá þurfti að hækka lægstu laun og bætur upp í þetta og það var ekki vilji til þess. Það sýnir okkur þá svart á hvítu hvernig kerfið er hugsað, að við skulum vita af því að það þurfi eitthvert ákveðið fjármagn til þess að lifa af en við ætlum samt ekki að hafa það þannig. Og við erum með ríkisstjórn núna sem veit auðvitað vel að það er hópur úti í samfélaginu sem getur ekki lifað af þessu, það eru einstaklingar sem fá 20.000 kr. hækkun á húsaleigu, 20.000 kr. hækkun á afborgun lána. Matur og allt er að hækka og við vitum að þessi 3% eru bara smá plástur á það svöðusár sem þetta fólk sér fram á að fá. Það er þetta fjárhagslega ofbeldi sem blasir við þeim: Hvernig eigum við virkilega að lifa af? Og það er bara ein leið hjá þessu fólki: Skera niður. En þetta fólk er búið að skera niður. Hvað á það að skera niður? Flestir eru búnir að skera þannig niður að þeir þurfa að standa í biðröð eftir mat og núna dettur starfsemi margra matarstofnana niður um sumarið. Ég meina, þetta fólk hefur enga möguleika. Og 5.000 kallinn, hann skiptir máli, en ég vildi óska þess að það væri mun meira sem við værum að setja hérna fram, en vonandi fáum við þá a.m.k. 4,5% þannig að það sé alla vega komið í veg fyrir það núna að kjaragliðnun aukist. Það hlýtur að vera minnsta mál hjá þessari ríkisstjórn ef hún sýnir að hún vill endurskoða almannatryggingarnar, vill fara að stoppa þessa kjaragliðnun og að hún vilji að fólk lifi með reisn, þá hlýtur hún að þurfa að byrja einhvers staðar. Þá ætti hún að byrja akkúrat þarna, að sjá til þess núna, fyrst við erum að þessu á annað borð og gera þetta á þessum hraða eins og við megum óttast.

Ég óttast að vegna hraðans á þessari afgreiðslu eigum við eftir að sjá hvaða áhrif þessi hringlandaháttur með 9%, 11%, 9% skerðinguna hefur. Maður fær hroll vegna þess að reynslan segir manni það að þetta á eftir að hafa áhrif einhvers staðar. Spurningin er bara hvar og hversu mikil áhrif það hefur. Það er það sem við vitum ekki. Ég verð að segja alveg eins og er að við munum sennilega aldrei vita það vegna þess að það verður svo erfitt að reikna út hvar þetta skellur á ef þetta veldur einhverju tjóni. Það segir okkur þá stóru sögu að allt sem við erum að setja inn í þetta kerfi núna — við höfum ekki hugmynd í sjálfu sér hvaða áhrif það hefur á alla þá sem eru inni í kerfinu. Sumir fá hag út úr því, aðrir standa í stað og það er alveg á hreinu að sumir tapa, kerfið er byggt upp þannig, þess vegna er þessu kerfi viðhaldið. Ég er alveg hættur að trúa að það sé einhver tilviljun hvernig þessu kerfi er viðhaldið vegna þess að það er vitað mál að meðan að kerfið er eins og er þá mun það ekki kosta of mikið. Þá mun alltaf eitthvað sem var sett inn á einum stað skila sér út annars staðar þannig að það mun jafnast út og sennilega er það yfirleitt, því miður, ekki í hag fyrir þá sem verst hafa það.