Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg innilega hv. þingmanni, þetta er eiginlega stórfurðulegt. Það sem er kannski merkilegast í þessu er að einmitt út frá þessu er gerð krafa af sjálfu sér — þess vegna er það alltaf sagt á skerðingardeginum, sem er 1. júní, að fólk þurfi að fara að greiða til baka, af því að það er eiginlega gerð krafa á þessa einstaklinga í almannatryggingakerfinu um að þeir reikni verðbólguna fram í tímann. Hvernig í ósköpunum eiga einstaklingar, veikir einstaklingar eða aldrað fólk hérna á landinu, að reikna verðbólguna fram í tímann þegar Seðlabankinn getur það ekki, ríkisstjórnin getur það ekki og hagfræðingar geta það ekki? Þess vegna er þetta auðvitað alveg arfavitlaust kerfi. En það sem ég myndi telja að vantaði inn í þetta núna, sem ég hefði viljað sjá, ég hefði viljað sjá hérna 90.000 kr. eingreiðslu eins og verið er að gera í Danmörku t.d., skatta- og skerðingarlausa. Vegna þess að ef við hefðum sett þetta inn, sérstaklega fyrir þá lægst launuðu sem eru í þessu kerfi en líka fyrir eldri borgarana okkar — vegna þess að þeir hafa ekki fengið krónu, ekki einu sinni í Covid. Aldrei hefur þessi ríkisstjórn sett krónu, eingreiðslukrónu til aldraðs fólks hér á landi. Og í þeirra hópi er stór hópur sem hefur það bara, eins og maður segir, skítt og þarf virkilega á því að halda að fá eitthvað. Þess vegna er eiginlega sorglegt til þess að vita að við séum að reyna að koma þessu í gegn, þessum 3%, sem er ótrúlega lítið. Þess vegna finnst mér líka sorglegt að við skulum ekki geta haft eingreiðslu, sérstaklega til að verja þá einstaklinga sem verst eru staddir í þessu kerfi.