Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

um fundarstjórn.

[18:22]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Mann verkjar hreinlega í hjartað að vera í þessum aðstæðum. Aldrei áður hefur staðið til að vísa jafn mörgum úr landi í einu. Það virðist eiga bara að sturta öllu þessu fólki úr landi til að losna við vandamálið, sem er ekki einu sinni vandamál. Þetta er fólk af holdi og blóði sem þráir að búa í friði og ró. Þarna er innan um börn sem hafa fest hér rætur, ganga í íslenska skóla, eiga íslenska vini og við þykjumst ekki getað fundið það hjá okkur í þessu friðsæla, fallega, risastóra landi að eiga smá, örlítið, pínulítið pláss fyrir þetta fólk. Í gær sendi Félagsráðgjafafélag Íslands frá sér yfirlýsingu og ályktun þar sem það fordæmir það sem verið er að gera.

Í ályktun Félagsráðgjafafélags Íslands segir að Ísland þurfi að leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar. Félagsráðgjafarnir segja að áform stjórnvalda nú séu í hrópandi mótsögn við þau markmið.