Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

um fundarstjórn.

[18:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að vísa aftur í þetta viðtal við hæstv. dómsmálaráðherra í morgun þar sem fram komu a.m.k. 11 rangfærslur. Mesta rangfærslan var að fólk sem fær vernd í einu Evrópuríki geti farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Það er rétt að fólk getur farið hvert sem er sem ferðamaður í þrjá mánuði en hann getur ekki farið og leitað sér að vinnu. Það er bara rangt. Það er sagt að reglurnar séu skýrar um að fólk sem fengið hefur vernd í öðru landi skuli fara aftur þangað. Það er líka rangt, eins og fyrsta rangfærslan sem ég fór hérna yfir áðan. Það er heimild til að vísa fólki aftur til baka en ekki skylda. Lagaumhverfið mælir gegn því að þessi hópur fái að vera hérna. Það er rangt. Flestir fara af landinu af sjálfsdáðum þegar þeir hafa fengið höfnun. Það er rangt. Að það brjóti gegn jafnræði að stöðva endursendingar til eins ríkis en ekki annars. Það er rangt. Þetta er allt rangt, aftur og aftur. Ég velti fyrir mér: Hversu margar rangfærslur getur einn ráðherra farið með í einu stuttu viðtali?