Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[16:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, það var margt athyglisvert sem hann fór yfir. Ég tel að þetta frumvarp sé til mikilla bóta og réttarbót, en betur má ef duga skal. Ég velti fyrir mér atriði sem hv. þingmaður kom kannski ekki inn á. Nú er verið að efla og styrkja lagatextann hérna, en þarf ekki líka að efla rannsóknir, efla þá rannsóknaraðila, rannsóknardeildir lögreglunnar, sem fást við þessi kynferðisbrot? Núna eru þetta mjög sérstök brot, barnaníð og hatursumræða. Hatursumræða hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, það féll dómur nýlega hvað það varðar, og þetta er mjög huglægt mat, hvenær um er að ræða hatursorðræðu og hvenær ekki. En þarf ekki að efla rannsóknir á þessu sviði innan sakamálageirans, réttarvörslukerfisins, til þess að taka á þessum málum eins og hv. þingmaður lagði áherslu á í máli sínu?