Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf áhugavert að fjalla um hatursorðræðu hérna. Almennt séð og í gegnum aldirnar hefur þetta verið rosalega mikið vandamál og verið misnotað, þ.e. að tala á ákveðinn hátt til ákveðinna hópa hefur verið misnotað af stjórnvöldum sérstaklega til að öðlast völd. Stærsta dæmið nýlega er kannski í Bandaríkjunum, með Trump og þar áður hjá nasistum og einræðisherrum annars staðar, þannig að takmarka það að opinbert vald geti beitt hatursorðræðu er rosalega mikilvægt. Svo kemur hitt til að hjálpa til, eins og það er orðað hérna, og styðja við frelsi almennt og réttindi minnihlutahópa, þá sem eru ekki opinberar persónur eða opinbert vald, bara almenningur úti í bæ. Það að þau séu einnig undir þessum lögum er síðan varhugavert á annan hátt sem við þurfum að vita af þegar við bætum við þessa löggjöf og notum þessa löggjöf. Til dæmis í máli sem kom upp hérna um daginn þar sem prestur úti í bæ talaði um sérstakan stað í helvíti, þá var það allt í einu orðin hatursorðræða. Þá er opinbert vald, valdhafar, að misbeita þessari löggjöf sér í vil og nota hana við rangt tækifæri. Þannig að eins nauðsynlegt og þetta er fyrir minnihlutahópa sem verða fyrir hatursorðræðu þá þurfum (Forseti hringir.) við að vera sérstaklega vakandi gagnvart því hvernig opinbert vald misnotar mögulega svona lög. (Forseti hringir.) Ég held meira að segja að það sé jafn alvarlegt mál, ef ekki alvarlegra, og þau réttindi sem við erum að reyna að vernda með þessari löggjöf.