Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við þurfum nefnilega að hætta að setja okkur öll í einhver hólf og við þurfum kannski að læra að vera börn aftur, læra að það er hægt að gera hvað sem er, læra að við erum öll eins. En því miður hefur maður séð meiri og meiri hatursorðræðu, sérstaklega í fjölmiðlum, í kommentakerfi fjölmiðla. Það eru jafnvel sumir fjölmiðlar, útvarpsstöðvar, sem ala á hatursorðræðu. Að sjálfsögðu kemur alltaf upp spurningin um tjáningarfrelsið. Það er erfitt að ballansera það tvennt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hlutverk fjölmiðla, hvað hann telur að við þurfum að gera. Hver finnst hv. þingmanni ábyrgð fjölmiðla vera þegar þeir eru með kommentakerfi þar sem hægt er að skrifa næstum því hvað sem er og komast upp með það? Allir fela sig á bak við það að kommentakerfið sé ekki hluti af fjölmiðlinum, sé ekki hluti af vefnum heldur sitji þetta tæknilega einhvers staðar annars staðar þannig að það sem sé skrifað þar sé ekki á ábyrgð fjölmiðlanna. Hvernig förum við með þetta vandmeðfarna vald til að stöðva hatursorðræðu í fjölmiðlum?