Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[17:15]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit ekki hvort hægt sé að stýra umfjöllun fjölmiðla vegna þess að í mörgum fjölmiðlum koma bara fram ákveðnar lífsskoðanir. Sumir fjölmiðlar hafa gripið til þess ráðs að loka kommentakerfum, sem er af hinu góða því að mér finnst skrýtið hvað fólk leyfir sér. Hér nefnir hv. þingmaður tjáningarfrelsi. Hvað er frelsi til að tjá sig? Getur maður verið frjáls á kostnað annars? Það er eitthvað sem við þurfum að íhuga. Get ég leyft mér eitthvað sem særir eða skaðar annan einstakling? Þannig vil ég nálgast þetta. Þess vegna á ég erfitt með að skilja það þegar verið er að senda lítil börn úr landi í aðstæður sem eru óásættanlegar. Ég get ekki leyft mér að halda Íslandi þannig að hér sé bara enginn velkominn nema hann sé svona á litinn eða hinsegin. Þegar herinn kom hingað á sínum tíma var bannað að blökkumenn kæmu hingað. Það var bara í samkomulagi sem Íslendingar gerðu og krafa sem Íslendingar settu: Það mega ekki koma blökkumenn til Íslands, þeir mega ekki vera í hernum sem á að vera hérna.

Frelsi eins má ekki vera á kostnað annara og það held ég að eigi að vera það sem á að reka menn áfram. Mig langar að vera frjáls og mér finnst að ég eigi að vera frjáls en ég vil ekki vera það á kostnað annarra.