Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[18:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til breytinga á lögum sem hafa það mikilvæga markmið að veita ákveðnum minnihlutahópum sömu refsivernd og öðrum hópum sem vitað er og viðurkennt og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að eru sérstaklega berskjaldaðir gagnvart hatursorðræðu og hatursglæpum. Hatursorðræða er skilgreind m.a. í 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem vísar til þess, með leyfi forseta:

„… að allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið, sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skuli bannaður með lögum.“

Ágæta skilgreiningu á hatursorðræðu er einnig að finna í umsögn Landssamtaka Þroskahjálpar um frumvarpið sem við erum að ræða hér í dag. Skilgreiningin í umsögninni er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hatursorðræða (e. hate speech) hefur verið skilgreind sem orðræða sem ræðst gegn einstaklingi eða hópi á grundvelli til dæmis kynþáttar, trúar, kyns, fötlunar eða kynhneigðar. Viðurkennt er að hatursorðræða er til þess fallin að ala á fordómum gagnvart fólki og hópum sem hún beinist að og leiðir þannig til aukinnar mismununar og getur einnig leitt til ofbeldis gagnvart þeim. Þá vegur hatursorðræða að skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem fyrir henni verða því að hún fælir þá frá að segja skoðanir sínar opinberlega og lýsa aðstæðum sínum og samfélagslegum hindrunum sem við er að glíma. Þess vegna er viðurkennt og mælt fyrir um það í fjölþjóðlegum mannréttindasamningum að ríkjum sé rétt að banna hatursorðræðu með lögum þó að í því felist nokkur skerðing á tjáningarfrelsi þeirra sem beina hatursorðræðu að öðrum. Með tilkomu og almennri notkun samfélagsmiðla hefur ógnin sem leiðir af hatursorðræðu gagnvart mannréttindum minnihlutahópa aukist mikið.“

Hatursorðræða er ein tegund hatursglæpa og við erum hér að ræða breytingar á almennum hegningarlögum. Segja má að hatursorðræða sé að einhverju leyti orsökin fyrir alvarlegri hatursglæpum og getur leitt þá af sér.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og er m.a. lagt til að við ákvörðun refsingar fyrir hvers konar brot beri að taka til greina hvort brot megi rekja til nánar tilgreindra atriða er varða brotaþola persónulega og brot sé þannig af meiði hatursglæpa. Auk þess er í frumvarpinu lagt til að að jafnaði skuli tekið til greina til þyngingar refsingar ef brot er framið í nærveru barns yngra en 15 ára. Ég ætla ekki að fara mikið út í það heldur út í fyrra atriðið og það sem ég ætla að nefna núna.

Í öðru lagi og nátengt fyrsta atriðinu er lagt til að hatursorðræðuákvæði 233. gr. a almennra hegningarlaga verði rýmkað þannig að þjóðlegur uppruni, á ensku, „ethnic origin“ falli ótvírætt þar undir sem og að ákvæðið veiti fólki með fötlun og fólki með ódæmigerð kyneinkenni refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd halda. En ákvæðið er svohljóðandi í núverandi mynd, með leyfi forseta:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Þarna er upptalning á þessum persónueinkennum. Með frumvarpinu er lagt til að í stað orðsins þjóðernis í þessu ákvæði hegningarlaga komi þjóðernisuppruna eða þjóðlegum uppruna og á eftir orðinu trúarbragða í sömu grein verði bætt við fötlunar og kyneinkenna. Hefur það þau áhrif sem ég var að lýsa hér rétt áðan.

Í þriðja lagi er lögð til hliðstæð breyting á 1. mgr. 180. gr. almennra hegningarlaga þannig að sömu hópar njóti verndar samkvæmt því ákvæði, sömu hópar og tilgreindir eru í 233. gr. a, en ákvæði 180. gr. hljómar svo í núverandi mynd, með leyfi forseta:

„Hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar skal sæta sektum … eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.“

Með breytingunni verður refsivert t.d. að neita einstaklingi með fötlun um vöru eða þjónustu til jafns við aðra.

Þá eru til lagðar til aðrar breytingar á hegningarlögum sem aðrir hv. þingmenn hafa rætt á undan mér en tímans vegna mun ég halda mig við þann hluta sem hér hefur verið rakinn.

Þetta er sannarlega er gríðarlega mikilvæg breyting og endurspeglar mjög mikilvæg viðhorf og mjög mikilvæga stefnu, ef svo má segja, en þessi stefna og þessi breyttu viðhorf, í þá átt að útrýma hatursorðræðu, hatursglæpum og hvers kyns mismunun í samfélagi okkar, gildandi lögum sem eiga að miða að því, er því miður lítið beitt. Þá verður að segja að breytingin er lítils virði. Þetta er mitt helsta áhyggjuefni í þessu frumvarpi. Á þessu er ágætlega tæpt í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, sem ég skrifa undir ásamt öðrum nefndarmönnum, enda var samhljómur um þetta mál í nefndinni, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um rýmkun hatursorðræðuákvæðis 233. gr. a almennra hegningarlaga. Fyrir nefndinni kom fram að enda þótt brot gegn 233. gr. a sæti opinberri ákæru“ — þ.e. það er ákæruvaldsins að sækja menn til saka, þetta er ekki einkamál, fólk þarf að höfða sjálft — „berist lögreglu ekki margar tilkynningar um brot gegn ákvæðinu. Bent var á að ástæða þess geti m.a. verið sú að almenningur þekki ekki ákvæðið nægilega vel eða að þeir einstaklingar sem ákvæðinu er ætlað að vernda séu berskjaldaðir, oft í viðkvæmri stöðu og þurfi stuðning við að tilkynna um hatursorðræðu og fylgja máli eftir. Jafnframt skiptir máli að lögregla fái nauðsynlega fræðslu um hatursorðræðu. Nefndin telur af því tilefni mikilvægt að fylgst verði með framkvæmd 233. gr. a almennra hegningarlaga og hvort frekari kynningar á hatursorðræðu og afleiðingum hennar sé þörf.“

Frumvarp þetta lýsir þannig vilja til þess að taka á hatursorðræðu og öðrum birtingarmyndum rasisma í okkar samfélagi.

Nú verð ég að segja að þetta er mikilvæg viðbót við gildandi löggjöf þar sem reynt er að sporna við þessu vonda samfélagsmeini. Það er hins vegar áhyggjuefni, líkt og ég nefndi áðan, hversu erfiðlega virðist ganga hjá stjórnvöldum að framfylgja þessum lögum. Hér langar mig að nefna aðra löggjöf sem hefur svipað markmið og eru mjög góð lög sem voru sett árið 2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, lög nr. 85/2018. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga er það markmið þeirra að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, það eru önnur lög sem gilda um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þetta er mikilvægt atriði vegna þess að sambærileg lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, það virðist ganga mun betur að framkvæma þau heldur en þessi sem gilda um samfélagið allt. Samkvæmt 7. gr. laga þessara er hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna er óheimil. Fyrirmæli um mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna teljast einnig mismunun samkvæmt lögunum sem og áreitni þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna. Þá er áhugavert að skoða skilgreininguna á áreitni sem kemur fram í 4. tölulið 3. gr. laganna en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.“

Samkvæmt 4. gr. laga fer um framkvæmd þeirra samkvæmt lögum um stjórnsýslu jafnréttismála og samkvæmt 8. gr. þeirra laga, svo ég haldi nú áfram að rugla hlustendur í ríminu, tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í m.a. þessum lögum um jafna meðferð óháð kynhneigð, kynþætti og þjóðernisuppruna og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.

Mér fannst þetta svo áhugavert þar sem einnig er verið að ræða í allsherjar- og menntamálanefnd tillögur ríkisstjórnarinnar að breytingum á þeim lögum sem eiga að víkka út gildissvið þeirra. Mér fannst þetta áhugavert þar sem ég hafði ekki orðið vör við að mikið hefði borið á úrskurðum um mismunun á grundvelli þjóðernis eða kynþáttar eða þjóðernisuppruna, þannig að ég kannaði hvort það væru ekki einhverjir úrskurðir. Ég kannaði á úrskurðasíðu kærunefndar jafnréttismála og fann engan úrskurð, ekki einn eða tvo, heldur engan frá árinu 2018. Þar sem það er sums staðar misbrestur á því að stjórnvöld með úrskurðarvald birti alla sína úrskurði þótti mér rétt að láta kærunefnd jafnréttismála njóta vafans og spurðist enn frekar fyrir um það hvort nefndinni hefðu borist mál á grundvelli þessara laga, af því að kærunefnd jafnréttismála fjallar sannarlega um brot á hinum ýmsu jafnréttislögum og er svo sem alveg ötul við það á mörgum öðrum sviðum. Umfjöllun um þetta frumvarp, um breytingar á þessum lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, vakti upp áhyggjur mínar af því að sömu ástæður og ráku fólk til þess að leita til kærunefndarinnar séu einnig fyrir því að fólki sé vísað þaðan. Óttast ég að tungumálaörðugleikar og algjört vanmat stjórnvalda á þörfinni á að finna lausn á þeim, skortur á menningarlæsi og almennir fordómar og staðalímyndir innan kerfisins verði til þess að fólki sem vill leita réttar síns sé vísað á rangan stað eða einfaldlega vísað frá. Í stjórnkerfinu vinnur nefnilega bara venjulegt fólk og það þarf leiðbeiningar og þjálfun til að vita hvernig á að breyta ákveðnum viðhorfum og vinna í samræmi við breytt viðmið.

Fyrr á þessu þingi lagði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fram fyrirspurn til forsætisráðherra í þremur liðum um framkvæmd þessara laga. Var hann þar á undan mér, ég ætlaði að senda fyrirspurn og þá var hann bara búinn að því — komi það hverjum sem er á óvart að hv. þm. Björn Leví hafi verið fyrri til að senda inn fyrirspurn. Hann spurði hversu oft hefði verið sektað fyrir brot á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna. Svarið var svohljóðandi, með leyfi forseta: „Eftir því sem ráðuneytið kemst næst hefur ekki reynt á sektarákvæðið fyrir dómstólum enn sem komið er.“

Þá spurði hv. þm. Björn Leví: Hversu oft hefur verið stofnað mál hjá Jafnréttisstofu í tengslum við ætlað brot á lögunum? Svarið var þess efnis að þrjú mál hefðu verið stofnuð í skjalakerfi stofnunarinnar frá árinu 2018. Ekkert þeirra leiddi til þess að upp væri kveðinn skriflegur úrskurður um það að lögin hefðu verið brotin. Sem fyrr segir liggja engir úrskurðir fyrir og það var staðfest af hálfu forsætisráðuneytisins í svari við þessari fyrirspurn þar sem fram kom að lög þessi hafa enn sem komið er ekki verið tekið til meðferðar hjá kærunefnd jafnréttismála. Þetta hlýtur að þýða að það sé engin mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernis í okkar samfélagi, eða hvað? Nú er tíminn runninn út og ég er bara rétt að byrja. En mig langar bara að vekja athygli á því að við erum hér að reyna að bæta löggjöf (Forseti hringir.) sem okkur gengur ekkert að framfylgja. Og hún er eins og hún er, með sínum göllum. Þessum breytingum þarf sannarlega að fylgja átak í því að framfylgja þessum lögum. (Forseti hringir.) Það er ekki nóg að skrifa þau. Það þarf að fylgja þeim.