Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 82. fundur,  31. maí 2022.

almenn hegningarlög.

389. mál
[18:22]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag um þetta mál og ég vil taka undir það sem kom fram hér á undan hjá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur þar sem hún sagði að það væri ekki nóg að setja lögin heldur þyrfti, hjá þeim stofnunum og þeim sem fá lögin í fangið og þurfa að framfylgja þeim, í einhverjum tilfellum að fylgja jafnvel einhvers konar viðhorfsbreyting. Það þarf að koma til fræðsla og aðrir slíkir þættir til þess að hin skrifuðu lög, reglurnar sjálfar, öðlist eðlilega virkni, ef við getum orðað það þannig.

Ég ákvað að taka aðeins til máls út frá því sem stendur í greinargerðinni og hafa þetta þá kannski svolítið almennt, en þar segir:

„Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu er að bregðast við breyttum samfélagslegum viðhorfum til þeirra brota og þeirrar háttsemi sem það fjallar um, þar á meðal varðandi barnaníð og hatursorðræðu, og fylgja réttarþróun annars staðar á Norðurlöndum …“

Þetta mál var til umfjöllunar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og bárust þó nokkrar umsagnir um málið, flestar jákvæðar, sumar með einstaka orðalagsbreytingum eða vilja til að hnykkja á ákveðnum þáttum, en í flestum tilfellum töldu menn að þetta frumvarp og þessi lög í framhaldinu yrðu til bóta og væru til að efla réttarvernd þeirra hópa sem hér eru undir. Það var einmitt út frá þessum orðum í greinargerðinni sem ég ákvað að taka þátt í umræðunni núna af því að verið er að tala um þessi breyttu samfélagslegu viðhorf til brotanna og þeirrar háttsemi sem fjallað er um. Það var það sem ég vildi gera að umtalsefni og þá með vísan í það sem kom fram í einni umsögninni, frá Félagsráðgjafafélagi Íslands sem segir, svo ég vitni nú orðrétt í umsögnina, með leyfi forseta:

„Félagsráðgjafafélag Íslands vill beina því til stjórnvalda að fylgja því eftir að ákvæði frumvarpsins komi til framkvæmda, verði það að lögum og jafnframt að tryggja þeim sem fremja brot gegn börnum aðgang að ráðgjöf og stuðningi fagaðila, svo sem félagsráðgjafa. Jafnframt þarf að tryggja aðgang að sérhæfðri samtalsmeðferð.“

Þegar ég var að lesa þetta varð mér hugsað til máls sem ég tók þátt í að fjalla um þar sem ég starfaði á fjölmiðli. Það var mjög umfangsmikið mál og varðaði mann sem síðar var dæmdur í nokkurra ára fangelsi. Það sem var undir í því máli sem við vorum að fjalla um í miðlinum var í raun og veru að þessi brotamaður var maður sem haldinn var barnagirnd og við náðum einhvern veginn að kortleggja ævi hans og brotaferil þar með. Í þessari umfjöllun játaði hann á sig tugi brota gegn tugum einstaklinga, tugum barna og ungmenna, það voru fatlaðir einstaklingar þarna undir og sjálfur var þessi maður auðvitað eins og gefur að skilja mjög veikur. Það sem var áhugavert við þetta var að þarna voru nokkrar kynslóðir, má segja, undir. Þetta var brotaferill sem spannaði nokkra áratugi, elstu brotin framin á tíma þar sem vitneskja um þessi mál var ekki mikil, það var lenska þá að sópa svona málum undir teppið. Viðhorf þeirra sem komu fram og sögðu frá svona brotum var kannski það að færa til brotamanninn, hann var stundum í kirkjulegu starfi, þessi brotamaður, og hann var þá kannski færður til eða vísað frá starfi, en það var lítið gert gagnvart þeim sem var þolandi. Þannig var þetta í raun og veru í gegnum áratugina. En það sem maður fer svolítið að hugsa um við lestur umsagnar félagsráðgjafafélagsins, þar sem talað er um að tryggja þeim sem fremja brot gegn börnum aðgang að ráðgjöf og stuðningi fagaðila, er að þetta hlýtur að vera alveg gríðarlega mikilvægt atriði vegna þess að þessi brotaferill mannsins færði manni heim sanninn um að þetta eru einhverjar kenndir og ógeðshneigðir sem menn stjórna ekki svo glatt. Þetta mál varð til þess að það urðu einhverjar lagabreytingar. Það sem sló mann auðvitað við þetta á sínum tíma, en þarna var verið að játa í falinni myndavél brot gegn tugum einstaklinga á löngum ferli og þetta voru margir tugir brota, var að það voru svo margir aðrir sem hringdu síðan inn á ritstjórnina til að láta vita að þeir hefðu líka lent í þessum manni, fólk sem hefði annars aldrei stigið fram, m.a. vegna þess að það taldi á þeim tíma að ekkert yrði gert í málinu.

Þessi löggjöf er angi af þeim meiði, eins og ég nefni, en ég tek þetta líka inn með þessum hætti vegna þess sem kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra, og ætla ég að vitna orðrétt í hana, með leyfi forseta:

„Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á barnaníðsákvæði hegningarlaga sem eru löngu tímabærar, framfaraskref og réttarbót. Það er mikilvægt að þarna er bæði verið að hækka refsirammann þannig að hann nálgist það að ná utan um stærstu málin og leiðbeiningar gefnar um mat á alvarleika brota. Það er líka sérstaklega ástæða til þess að fagna þeim breytingum sem gera á varðandi kynferðislegar myndasendingar á milli ungs fólks. Það styður skilaboð laganna um mikilvægi samþykkis í kynferðislegum samskiptum og er til þess fallið að skýra réttarvernd.“

Þetta samhengi vildi ég hafa í huga vegna þess að þótt eðli brotanna séu í raun og veru alltaf það sama þá getur vettvangurinn breyst með tímanum og margt af þessu er orðið rafrænt og annað í þeim dúr. Það færði mér heim sanninn um það, eftir að hafa fjallað um þetta mál á sínum tíma, að þegar kemur að efni þessa frumvarps, þ.e. barnaníði, þá er umfangið svo miklu, miklu meira en við gerum okkur grein fyrir. Þetta er miklu ljótari og verri heimur en við höldum. Við hljótum því að styðja alla viðleitni löggjafans til að gera lagarammann þannig að það sé hægt að bregðast við með skilvirkum hætti

En síðan er líka í þessu máli verið að tala um hatursorðræðuna, svo ég vindi mér þangað. Menn hafa svolítið verið að velta því fyrir sér hvernig eigi að skilgreina hatursorðræðu. Svo ég vitni í það sem stendur um það í Wikipediu:

„Í lagalegum skilningi er hatursorðræða hver sú orðræða, bending eða atferli, skrif eða tjáning, sem er bönnuð sökum þess að hún kann að hvetja til ofbeldis eða saknæms athæfis gegn einstaklingi eða hópi sem nýtur verndar laganna, eða sökum þess að hún er lítillækkandi eða ógnandi fyrir slíkan einstakling eða hóp.“

Svo er vísað til þess að í sumum löndum geta þeir sem fyrir hatursorðræðu verða sótt til saka fyrir rétti en mjög sé deilt um hatursorðræðu á netinu og hvar mörk tjáningarfrelsis og hatursorðræðu skarast. Það var einmitt rætt um það í fyrri ræðum hvar geta mörkin í þessu öllu saman verið. Þetta er auðvitað bara eilífðarviðfangsefni sem við erum að fást við í löggjöf og sem verið er að takast á við í dómstólum, hvar mörkin eru. Ég hugsa það stundum þegar tjáningarfrelsismaðurinn í mér kemur upp og maður veltir því fyrir sér hvort það sé ekki alltaf af hinu góðu að hafa minni hömlur á orðum festar í lög, hvort það sé ekki alltaf best, að þá festist maður stundum í þeirri hugsun að maður er sjálfur í þeim forréttindahópa og þeirri stöðu að vera kannski seint sá sem verður fyrir einhvers konar hatursorðræðu. Það er bara svolítið þannig.

Þá komum við að einu sem ég vildi nefna í þessu samhengi þegar við erum að tala um hatursorðræðuna. Hvernig sem hún er nákvæmlega skilgreind þá held ég að það skipti alveg gríðarlega miklu máli að þeir sem eiga ekki réttindi sín eða líf undir slíkri lagasetningu fari varlega í að nota þessi hugtök, t.d. þegar talað er um hatursorðræðu í samhengi við eðlilega pólitíska umræðu sem á sér stað hér. Þá er ég að vísa í nýlegt mál þar sem var verið að gagnrýna brottvísanir flóttamanna. Þá voru t.d. stjórnmálamenn í flokki VG sem fóru að tala um að orðræðan væri hatursorðræða. Ég þarf svo sem ekki að rekja þá málavexti í löngu máli en þar var talað um þessa ríkisstjórn sem fasistastjórn og talað um vist í helvíti og við þekkjum það allt saman. Ég get auðvitað skilið að þingmönnum VG finnist erfitt að vera sakaðir um að styðja fasistastjórn enda ætla ég að leyfa mér að segja það að hér ríkir engin fasistastjórn. Ef það væri fasistastjórn í landinu þá gengi presturinn sem lét þessi ummæli falla ekki lengur frjáls. En þarna kemur inn auðvitað rétturinn til að tjá sig svolítið harkalega um málefni líðandi stundar og við hljótum að veita mönnum svolítið svigrúm til þess. En þá skiptir auðvitað mjög miklu máli að þeir sem til að mynda setja lög eins og við erum að ræða hér um, þar sem undir er hugtakið hatursorðræða, notfæri sér ekki það hugtak sem einhvers konar skjöld þegar þeir sæta gagnrýni fyrir eitthvað sem mikið er rætt um í samfélaginu og vekur heitar tilfinningar hjá fólki. Það var einnig vísað hérna áðan til máls þar sem lögreglan hafði afskipti af ungum dreng, tók hann í misgripum fyrir annan ungan mann sem var eftirlýstur. Það mál þekkjum við auðvitað líka. Það var til að mynda opinn nefndarfundur hér í þinginu þar sem lögregla sat fyrir svörum um það mál og ég veit að það eru skiptar skoðanir í nefndinni um það hversu vel lögreglan stendur að þessum málum. Þá kem ég aftur að upphafsorðunum hérna áðan, en þar fannst mér að a.m.k. vilji lögreglunnar og yfirmanna þar til að taka á málum væri vissulega til staðar. En síðan er það spurningin hvernig það skilar sér niður á gólfið. Þarna eru undir hópar sem eru viðkvæmir og við þurfum að gæta að því að sú fræðsla sem talað var um í upphafi skili sér þangað og að þær stofnanir sem undir eru séu nægilega burðugar og öflugar til þess að geta tekist á við að framfylgja þessum lögum og gert það með réttum hætti, sem er auðvitað ekki sjálfgefið, eins og þessi dæmi sanna öllsömul.

Síðan langaði mig aðeins að nefna varðandi hatursorðræðuna að þetta er eitthvað sem maður sér bara ótrúlega mikið á netinu, t.d. á Facebook. Ég á t.d. eina Facebook-vinkonu sem er mjög hatursfull í garð ákveðinna trúarhópa og viðrar þær skoðanir sínar alveg hikstalaust með mjög ljótri og hatursfullri orðræðu, það er ekkert annað en hatursorðræða. Ég hef þennan kima á Facebook opinn þó að hann sé mér þvert um geð, bara til þess að geta fylgst með því hvers konar sjúkir hugar geta verið þarna. Það sem er manni endalaust undrunarefni er að þegar kemur eitthvert eitt svona haturskomment, þó að því sé ekki beint gegn tilteknum einstaklingi þá er því svo sannarlega beint gagnvart tilteknum hópi, þá er alveg ótrúlegur fjöldi af fólki sem tekur undir, annaðhvort með því að læka eða bara hreinlega í orðum. Það segir manni auðvitað að þetta er gríðarlega útbreitt vandamál. Ég gæti síðan haldið langa ræðu um að manni finnst þetta kannski tilheyra ákveðnum hópum frekar en öðrum. Það er jafnvel aldursbreyta þarna inn í.

Þetta leiðir okkur kannski aftur að því að þegar talað er um í greinargerð að með frumvarpinu sé verið að bregðast við breyttum samfélagslegum viðhorfum til þeirra brota og þeirrar háttsemi sem fjallað er um, þá er undir barnaníðið og hatursorðræðan eins og ég var að rekja, þá hljótum við öll að styðja allar þær breytingar sem ætlaðir eru til að styrkja lagarammann og auðvelda mögulega í framhaldinu þeim stofnunum sem undir eru að framfylgja þessum lögum. Þannig að ég styð algerlega meginefni þessa frumvarps og greiði því atkvæði mitt. Auðvitað má hafa einhverjar skoðanir á einhverjum smáatriðum og núningsatriðum hér og þar, en meginefnið er gott og þess vegna ljái ég því minn stuðning.