Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa kynningu, þessa þingsályktunartillögu og hvernig haldið hefur verið á málinu. Ég held að það sé óhætt að taka undir það sem hæstv. ráðherra nefndi um mikilvægi þess að Ísland sýni áfram óbilandi stuðning sinn við vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum og að ríkisstjórn Íslands og Alþingi, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, sýni samhug og samstöðu í verki í þessu máli. Ég vænti þess að Alþingi geri það að langmestu og líklega að öllu leyti. En hvað með ríkisstjórnina? Er ríkisstjórn Íslands einhuga um ekki bara mikilvægi þess að Finnland og Svíþjóð verði aðilar að Atlantshafsbandalaginu heldur að Ísland sé það líka? Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr. Utanríkismálanefnd Alþingis fór í afar áhugaverða heimsókn til þjóðþinga og ráðherra í Eistlandi og Finnlandi fyrir skömmu síðan þar sem þessi mál voru til umræðu og þar stigu fram margir vinstri menn á þingum þessara landa og sögðust hafa verið eindregnir andstæðingar aðildar að NATO fram að 24. febrúar á þessu ári. Þá hefðu þeir einfaldlega skipt um skoðun. Þótt þeir kynnu að meta stuðning Íslands þótti þeim skrýtið að hafa heyrt af því að það væri ekki eindrægni, svo ég vitni í orð hæstv. ráðherra, um afstöðu Íslands sjálfs til aðildar að NATO. Þetta skiptir því máli í þessu samhengi eins og við heyrðum frá þessum norrænu þingmönnum sem lögðu mikla áherslu á eindrægni og samstöðu þar í landi um aðild að NATO. Skiptir ekki máli hér líka á Íslandi að ríkisstjórn landsins sýni samstöðu og eindrægni varðandi aðild að Atlantshafsbandalaginu?