Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir það. Almennt er það gagnlegt að tala skýrt en ekki hefði hvarflað að þeirri sem hér stendur að vera sett í þá stöðu að þurfa að gera það á þessum tíma um þessi mál. En allt er breytingum háð og ákveðin átök og ákveðin hugmyndafræði og ákveðin samfélagsgerð og það sem menn telja sig geta komist upp með, snýr einhvern veginn alltaf aftur, líka þegar maður heldur að það muni ekki gera það. Þá skiptir mjög miklu máli að tala skýrt, ég er sammála hv. þingmanni um það, ég lít líka svo á. Stundum finnst mér í umræðu um utanríkismál á Íslandi að einhverjum kunni að þykja það ekki skipta mjög miklu máli yfir höfuð hvað Ísland segir, við séum svo smá og við séum svo fá, við séum svo langt í burtu, við séum ekki með her o.s.frv., og þegar hlutirnir eru óþægilegir þá sé kannski betra að segja ekki neitt eða betra að segja sem minnst vegna þess að annars sé verið að rugga einhverjum bátum. Ég er algjörlega ósammála því mati. Ég er þeirrar skoðunar að smáríki sem hefur sama sæti við borðið og öll hin, eitt sæti eins og hin stóru, eigi einmitt og hafi ríkari siðferðislega skyldu til að nota rödd sína og segja hluti sem þarf að segja, sérstaklega þar sem við höfum ákveðinn trúverðugleika, en líka þar sem við höfum bara mjög ríka og sterka sannfæringu. Þannig að þrátt fyrir að við séum að upplifa algerlega ömurlega tíma á alþjóðavettvangi og þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, þá sinni ég því hlutverki af mikilli og einlægri auðmýkt en geri það glöð að segja hluti upphátt og segja þá skýrt.