Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það eru mikil heimssögulegu tíðindi að Svíþjóð og Finnland skuli nú hafa sótt um aðild að NATO enda hafa þessi ríki, reyndar með ólíkum hætti, haft hlutleysi sem hornstein utanríkisstefnu sinnar, en nú hafa mál því miður skipast þannig í Evrópu að þessi ríki telja sér ekki stætt á öðru en að bindast samtökum við aðrar þjóðir Evrópu og Bandaríkin um varnir sínar. Slík er ógnin sem þau telja að sér steðja vegna útþenslustefnu Rússa. Samfylkingin styður þessa tillögu og vill greiða fyrir því að þessi umsókn verði afgreidd hratt og örugglega, enda er það fagnaðarefni að akkúrat þessar þjóðir bætist í þennan félagsskap. Það er talað um það í greinargerð að þessi ríki eigi bæði hugmyndafræðilega samleið með grunngildum Atlantshafsbandalagsins, en þar segir, með leyfi forseta, „að aðilar samningsins lýsi yfir tryggð við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir“ og að markmið samningsins sé að varðveita „sameiginlega arfleifð og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti“. Það má auðvitað alltaf deila um það hversu vel hefur alltaf tekist til hjá aðildarþjóðum NATO og jafnvel í bandalaginu í heild sinni að uppfylla þessi markmið en það er hins vegar alveg ljóst að aðild Finna og Svía mun verða til þess að styrkja þau. Það er líka ástæða til að ætla að innan bandalagsins muni styrkjast sú sýn norrænna þjóða að best fari á því að finna friðsamlegar lausnir á ágreiningi þjóða og að vænlegast til að stuðla að öryggi og friði í heiminum sé að auka jöfnuð milli þjóða, innan einstakra ríkja, jöfnuð og réttlæti.

Frú forseti. Samfylkingin styður bæði í orði og verki aðild okkar Íslendinga að NATO. Við erum vissulega vopnlaus og friðsöm þjóð en þar með er ekki sagt að við þurfum ekki að gæta varnarhagsmunum okkar og við getum einfaldlega ekki látið sem heimurinn komi okkur ekki við. Ógnirnar sem steðja að nútímasamfélögum eru vissulega fleiri og flóknari en þær voru þegar bandalagið var myndað. Við kjarnorkuógnina hefur nú bæst sú ógn að það er hægt að ráðast á innviði ríkja, á innviði samfélaga og hernaðurinn getur birst okkur stundum í líki upplýsingaóreiðu eða markvissra falsfrétta. Ólíkar varnir eiga að sjálfsögðu við þar. En eftir sem áður hljótum við Íslendingar að skipa okkur í sveit með rótgrónum lýðræðisþjóðum sem hafa bundist samtökum um að styrkja varnir sínar gegn hernaðarlegum ógnum, hvernig sem þær svo birtast. Þó að við höfum ekki á að skipa her og það standi ekki til að stofna her hér á landi þá getum við og eigum að beita okkur innan NATO með margvíslegum öðrum hætti. Við höfum þar rödd og við eigum að nota hana. Við eigum að láta í okkur heyrast. Nú þegar það lítur þannig út að frændþjóðum okkar fjölgi innan bandalagsins ætti það að styrkja þessa rödd okkar. Það er því í samræmi við þjóðarhagsmuni okkar að vera í sem nánustum tengslum við frændþjóðir okkar og lýðræðisríki í Evrópu. Þá er líka full ástæða til að nota þetta tækifæri til að minna á að öflugasta og skilvirkasta samstarf Evrópuþjóða, ekki síst á sviði lýðræðis, frelsis og friðar, á sér stað innan Evrópusambandsins. Þar eigum við Íslendingar að sjálfsögðu að vera með fulla aðild með grönnum og vinnum frekar en tvístígandi áratugum saman í gættinni.

Frú forseti. Um tildrög þessarar umsóknar þarf ekki að fara sérstaklega mörgum orðum. Hafi Rússar talið sér standa ógn af NATO og vaxandi styrk og umsvifum bandalagsins í kringum sig verður seint sagt að innrásin í Úkraínu hafi orðið til þess að draga úr því. Þvert á móti varð hún til þess að þjóðum bandalagsins mun fjölga í hópi nágranna Rússa, fyrir utan auðvitað allan þann skaða, þann óheyrilega skaða og harmleik sem innrásin hefur valdið, fyrst og fremst auðvitað fyrir úkraínsku þjóðina sjálfa en líka fyrir Rússa, bæði hvað varðar efnahag og orðspor. Þessi ólögmæta innrás Rússa hefur með öðrum orðum styrkt NATO og veikt Rússa.

Frú forseti. Ég er ánægður að það skuli hafa myndast þetta víðtækur stuðningur í utanríkismálanefnd og mér heyrist í öllu þinginu fyrir þessari tillögu og ég hlakka til að halda áfram meðferð málsins í nefnd og við síðari umræðu.