Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mikilvægasta markmiðið með alþjóðastjórnmálum er friður. Það er okkar hlutverk sem stjórnmálamenn að stuðla að friði í heiminum. En það er ekki alltaf auðvelt að berjast fyrir friði þegar aðrar þjóðir ákveða upp á sitt einsdæmi að hefja stríðsrekstur. Staðreyndin er sú að öryggisumhverfi í Evrópu hefur tekið miklum breytingum á síðustu 100 dögum. Við upplifum nú fyrsta stríðið í Evrópu um áratugaskeið. Þessi breytta heimsmynd hefur leitt til þess að frændþjóðir okkar, Svíar og Finnar, sem hingað til hafa verið utan hernaðarbandalaga, sækjast eftir aðild að NATO. Bak við þessa ósk um aðild í þessum tveimur ríkjum liggur bæði meiri hluti lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðþinga þessara landa og vilji afgerandi meiri hluta þjóðanna beggja. Raunin er að þrátt fyrir að vera lítið land þá hefur Ísland sterka rödd á alþjóðasviðinu. Það er stefna Pírata að nýta hana til að fara fram með góðu fordæmi. Ísland á að beita sér fyrir eflingu og verndun mannréttinda í alþjóðasamstarfi. Píratar vilja tryggja að allir milliríkjasamningar séu opnir og aðgengilegir og beint lýðræði verði haft að leiðarljósi við meiri háttar ákvarðanir um utanríkismál. Ástæðan er að við trúum á rétt borgaranna til að koma að ákvörðunum, t.d. um hvort þjóðin á að vera í NATO, ESB eða hvers konar alþjóðasamstarfi sem er. Og alveg eins og við trúum því að Íslendingar eigi að hafa sitt að segja um hvaða alþjóðasamstarfi við tökum þátt í þá trúum við því að borgarar annarra þjóða eigi að hafa sitt að segja um hvaða alþjóðasamstarfi þeir taka þátt í. Það er stefna okkar Pírata að aðild Íslands að NATO endurspegli rödd og vilja þjóðarinnar um þátttöku í NATO og öðrum varnarbandalögum. Við hljótum því að styðja lýðræðislegan vilja og rödd frændþjóða okkar á Norðurlöndum þegar kemur að þátttöku þeirra landa. Það er jafnframt stefna okkar Pírata að unnið sé markvisst gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. Það vekur auðvitað upp spurningar þegar fyrir okkur liggur að samþykkja útvíkkun hernaðarbandalaga. Það er ákvörðun sem á ekki að taka af léttúð. Okkur ber að hugsa til skammtíma- og langtímaafleiðinga slíkra ákvarðana, hvað það mun þýða fyrir frið í heiminum til lengri tíma og okkur ber að hafa í huga hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir aðrar bandalagsþjóðir og fyrir þær sem standa utan bandalagsins. Það að fá inn fleiri norrænar þjóðir í NATO sem hafa svipuð gildi og við kann jafnvel að leiða til þess að rödd friðar verði hærri innan raða þess. En óháð því hvort reyndin verður sú eða ekki leggjum við Píratar mesta áherslu á að við virðum vilja þeirra þjóða sem sækjast eftir aðild. Virðingin fyrir lýðræðinu og sjálfsákvörðunarrétti fólks verður að vera ofar einstökum pólitískum markmiðum leiðtoga og stjórnmálamanna. Þess vegna styð ég samþykkt þessarar þingsályktunartillögu um að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaða viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild lýðveldisins Finnlands og konungsríkisins Svíþjóð þegar þeir liggja fyrir.