Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[17:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins styður með eindregnum hætti aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að NATO og leggur áherslu á að bæði löndin muni styrkja og efla Atlantshafsbandalagið. Það eru stórtíðindi, heimssöguleg tíðindi, nú þegar Finnland og Svíþjóð sækja um aðild að NATO, ríki sem eru meðal okkar nánustu vinaþjóða, þjóðir sem fram að þessu hafa litið svo á að þeirra hagsmunum í varnar- og öryggismálum væri betur komið með því að vera utan við NATO. Þessi áralanga afstaða breyttist skyndilega með innrásarstríði Rússlands í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Sú innrás breytti þjóðarvilja þessara vinaþjóða okkar á undraskömmum tíma, á nokkrum dögum. Það var einstök stund að vera í Helsinki og eiga fundi með utanríkismálanefnd Finnlands og finnska utanríkisráðherranum, Pekka Haavisto, með utanríkismálanefnd Alþingis 18. maí, sama dag og Finnar og Svíar sóttu formlega um aðild að NATO. Það var stór stund. Aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO mun efla varnir landanna tveggja og NATO í heild sinni, sérstaklega í nyrsta hluta Evrópu. Geta bandalagsins mun eflast þar með herjum vinaþjóð okkar sem þekkja þetta heimssvæði vel. Sérhæfing þeirra á norðurslóðum eflir sameiginlegar varnir NATO.

Kjarni í þjóðaröryggisstefnu okkar Íslendinga er aðild okkar að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Með undirskriftum fulltrúa okkar Íslendinga við Washington-sáttmálann í upphafi aprílmánaðar 1949 og varnarsamninginn við Bandaríkin í maí 1951 voru farsæl skref tekin fyrir ungt lýðveldi, skref sem hafa verið okkur ákaflega mikilvæg í rúm 70 ár. Á sama tímabili höfum við átt í nánu samstarfi við vinaþjóðir á Norðurlöndum og mikilvægt samstarf í Norðurlandaráði. Á þeim vettvangi hafa varnar- og öryggismál okkar ekki verið til umræðu. Það breytist væntanlega við innkomu Svíþjóðar og Finnlands í NATO þannig að umræðan þar mun væntanlega taka þó nokkrum breytingum og í góðu samstarfi við Eystrasaltsríkin og norðurhluta Evrópu. Sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins á vorfundi NATO-þingsins í Vilníus á mánudaginn var áréttaði ég eindreginn stuðning Íslands við aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að NATO.

Að lokum vil ég ítreka eindreginn stuðning þingflokks Sjálfstæðisflokksins við umsóknir Finnlands og Svíþjóðar að NATO.