Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[17:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er óþolandi að Rússar hafi með hervaldi ráðist inn í annað ríki. Það er hins vegar að mínu mati mikilvægt að tala fyrir friði og afvopnun, ekki síst á ófriðartímum, enda sjáum við svo vel í öllum fréttum núna hvaða áhrif stríð og stríðsrekstur hafa á óbreytta borgara og við eigum að gera allt til þess að koma í veg fyrir stríð. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem sú staða kemur upp að ný ríki sæki um inngöngu í NATO og við höfum rætt þetta áður hér á þingi. Stefna VG um að vinna að þeirri skoðun meirihlutafylgis á Íslandi að við eigum að standa utan NATO hefur þó ekki breyst. Sjálf hefði ég ráðlagt frændþjóðum okkar, sem sækja nú um inngöngu í NATO, að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál, enda getur þetta skilur eftir sig djúp sár meðal þjóðanna. En líkt og ég sagði áður þá hafa aðildarumsóknir að NATO áður komið til kasta Alþingis og nú líkt og þá ber ég virðingu fyrir afstöðu ríkja sem komist hafa að annarri niðurstöðu um það hvernig eigi að meðhöndla þessi mál. Ég ber virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þeirra um hvernig þau vilja haga sínum málum.