Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

333. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Orri Páll Jóhannsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti í 333. máli um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frumvarpið felur í sér nokkrar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, m.a. heimild til ráðherra til að kveða á um í reglugerð að lágmarkskröfur um menntun, þjálfun og námskeið, fyrir þau sem þurfa að hafa þekkingu og hæfni á sviði sóttvarna, skyndihjálpar og öryggisþátta, verði styrktar. Jafnframt að bætt verði við heimild til að beita stjórnvaldssektum og auka skilvirkni við skil umhverfisupplýsinga.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust þrjár umsagnir en greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega að hún tók til skoðunar d-lið 5. gr. frumvarpsins með hliðsjón af athugasemdum Umhverfisstofnunar við þá grein. Samkvæmt ákvæðinu er Umhverfisstofnun heimilt að fela aðilum sem stofnunin metur hæfa á grundvelli þekkingar og reynslu að hafa umsjón með þjálfun, námskeiðum, endurmenntun og hæfnisprófum. Benti Umhverfisstofnun á að miðað við orðalag ákvæðisins virtist gert ráð fyrir að stofnunin ætti almennt að hafa yfirumsjón með þeim námskeiðum sem fjallað væri um í kaflanum auk þess sem mætti álykta sem svo að ef stofnunin notaði ekki heimild sína til að fela hæfum aðila að hafa umsjón með námskeiðum ætti stofnunin sjálf að halda slík námskeið.

Að mati nefndarinnar er greinin skýr hvað varðar hlutverk stofnunarinnar, þ.e. að hafa yfirumsjón með námskeiðunum. Stofnuninni sé ekki falið að standa fyrir þjálfun, námskeiðum og prófum heldur beri að fela slíkt aðilum sem stofnunin metur hæfa til verks.

Þá ber að taka fram að á fundi nefndarinnar með ráðuneytinu og Umhverfisstofnun féll stofnunin frá tillögu sinni að greinin yrði felld brott og lagði áherslu á að gott samráð yrði haft við Umhverfisstofnun við útfærslu ákvæðisins. Tekur nefndin heils hugar undir það að þarna sé gott samráð og samtal á milli.

Þá fjallaði nefndin um stjórnvaldssektarákvæði 12. gr. frumvarpsins en þar er lagt til að Umhverfisstofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem virða ekki ákvæði starfsleyfa um mengunarvarnir, hvíld svæðis, skýrsluskil eða mælingar.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur benti á að rétt væri að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hefðu sömu heimildir til að beita stjórnvaldssektum og Umhverfisstofnun. Á hinn bóginn verður að líta til þess að heilbrigðiseftirlitssvæðin eru níu talsins og misstór. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að beiting stjórnvaldssekta sé samræmd um allt land en það að beiting slíkra sekta sé á hendi eins stjórnvalds sé til þess fallið að tryggja þá samræmingu, málsmeðferð og réttarvernd sem gerð er krafa um að stjórnsýslurétti. Hins vegar er mikilvægt að Umhverfisstofnun vinni í nánu samstarfi við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir þegar ákvæðinu er beitt.

Nefndin fjallaði að auki um löngu tímabæra heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og fagnar því sérstaklega að vinna við þá endurskoðun sé hafin í ráðuneytinu.

Að lokum telur nefndin rétt að vekja athygli á því orðalagi frumvarpsins sem tekur mið af sjónarmiðum um kynhlutleysi þannig að notast er við „þau sem“ í stað „þeir sem“ í 5. gr. frumvarpsins. Frumvarpið er hins vegar breyting á gildandi lögum nr. 7/1998, þar sem málfræðilegt karlkyn er ráðandi. Mikilvægt er að við heildarendurskoðun laganna verði gætt samræmis um orðanotkun að þessu leyti. Af þessu tilefni, eðli málsins samkvæmt, er þetta sérstaka atriði ekki endilega atriði sem lá fyrir til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni, en nefndin ræddi þó þennan anga málsins. Ég vil halda því til haga sem framsögumaður málsins að það sé afar mikilvægt, ef við ætlum raunverulega að ná fram hugarfars- og skilningsbreytingu í samfélaginu á því að ekki byggi allt tungutak okkar á málfræðilegu karlkyni, að við vinnum líka að því markvisst — ég ætla ekki að nota orðið útrýma en allt að því — að taka alltaf tillit til þess að huga að hlutleysi þegar kemur að kyni í orðfæri texta. Ég endurtek því það sem fram hefur komið að það er mikilvægt við heildarendurskoðun laganna, sem er löngu tímabær, að horft verði til kynhlutleysis. Um þetta hafa bæði verið ritaðar skýrslur á vegum Stjórnarráðsins en eins líka fjallað um það hér í þingsal og ég ætla svo sem ekki að bæta við þá umræðu.

Nefndin leggur til minni háttar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif og þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með áðurnefndum lagatæknilegum breytingum.

Undir nefndarálitið, auk þess sem hér stendur, rita hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Andrés Ingi Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.