Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa.

599. mál
[20:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Einn áhrifamesti útvarpsþáttur seinni ára heitir Eins og dýr í búri og var gerður af Viðari Eggertssyni og fjallar um vöggustofuna á Hlíðarenda á sjötta áratug síðustu aldar. Þar segir frá þeim ungbörnum sem þar voru og þeirri tilfinningalegu einangrun sem þau voru látin sæta. Það var sagt frá foreldrum sem vegna fátæktar eða annarra aðstæðna gátu ekki annast um börnin sín en fengu að koma í heimsóknir. Þau fengu hins vegar ekki að snerta börnin sín eða tengjast þeim á annan hátt en þurftu að horfa á þau í gegnum gler. Þetta var ekki síst út af ríkjandi bábilju þess tíma um þroska barna og algeru skilningsleysi á nauðsyn tengslamyndunar sem þessar aðferðir voru viðhafðar. En það var sálfræðingur sem þarna náði að grípa inn í, Sigurjón Björnsson, sálfræðingur, sem átti sæti í borgarstjórn á þessum árum. Hann notaði um þessa starfsemi þau orð að þetta væri gróðrarstía andlegrar veiklunar. Hann náði að beita áhrifum sínum til að þessari starfsemi var breytt. Sjálfur slapp Viðar Eggertsson betur en mjög margir aðrir úr þessari vöggustofuvist en hefur gert mikið til að minna okkur á þessa sögu og halda henni lifandi. Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu um hlutskipti barna sem voru tekin af heimilum og send í vist sem átti að heita örugg en reyndist það ekki. Nægir auðvitað að minnast á Breiðuvík í því sambandi. Það er mikilvægt að við skoðum hvað varð um þau börn sem voru vistuð á vöggustofum á þessu tímabili og safna saman sögum þeirra sem enn eru til frásagnir um þessa starfsemi og við þurfum að hefjast handa eins fljótt og auðið er.

Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða og við vinnslu málsins hjá nefndinni komu fram ábendingar sem urðu til þess að það voru breytingartillögur gerðar sem hv. framsögumaður nefndi hér áðan, sem ganga m.a. út á það að lög um opinber skjalasöfn gildi ekki um aðgang að gögnum nefndarinnar, sem til stendur að skipa, á meðan hún starfar, en þegar hún hefur lokið störfum þá gildi um gögn hennar lög um skjalasöfn eftir atvikum. Það var líka rætt um heimildir frumvarpsins til vinnslu persónuupplýsinga hjá umræddri nefnd sem til stendur að skipa og nefndin leggur til breytingartillögu sem á að skerpa á þeim heimildum sem á þarf að halda.

Að lokum er rétt að minnast á að þetta mikilvæga mál sem hér er rætt á ekki síst rætur að rekja til baráttu hópsins Réttlætis og auðvitað fjölda einstaklinga sem eiga í rauninni fortíð sem ekki hefur reynst góð á þessum vöggustofum. Ég vona innilega að þetta mál gangi hratt og örugglega í gegnum þingið og verði samþykkt.