Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[12:20]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mér fannst það stórfenglegt þegar ég keyrði austur á Höfn í aðraganda síðustu alþingiskosninga að upplifa jökulinn nánast bara út um gluggann og þann stórfengleik sem jökullinn skapaði í umhverfi Hafnar. Þess vegna finnst mér spennandi að sjá að verið sé að flytja stofnun sem þessa af höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðina þar sem hún á svo sannarlega heima.

Ég hlýt sem þingmaður þessa kjördæmis að fagna fleiri störfum í mínu kjördæmi. Það vakti samt athygli mína þegar ég las frétt af þessu sem birtist 4. maí síðastliðinn að þar stóð, með leyfi forseta:

„Formlegt aðsetur og lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs verður flutt frá höfuðborgarsvæðinu til Hafnar í Hornafirði í haust […] Héraðsbúar eru undrandi á þessum fréttum. Þeir stóðu í þeirri meiningu að höfuðstöðvar þjóðgarðsins hefðu verið fluttar þangað fyrir fimm árum.“

Aðeins neðar stendur:

„Til stóð að breyta þessu árið 2017 og 21. mars var blásið til snittuveislu í Fellabæ í nágrenni Egilsstaða. Þar var tilkynnt um flutning höfuðstöðvanna út á landsbyggðina og opnun nýrrar aðalskrifstofu á Héraði.“

Ég hlýt að velta því fyrir mér í anda þess að við erum að vinna fyrir allt landið: Hvað gerðist þarna? Af hverju eru Héraðsbúar undrandi yfir því sem er að gerast núna? Hvers vegna náði það ekki fram að ganga að þessi aðalskrifstofa yrði flutt austur? Nú er búið að taka aðra ákvörðun um flutning hennar. Mér þætti vænt um að fá einhverjar upplýsingar um þetta.

Hæstv. ráðherra, sem ég vil byrja á að þakka fyrir að flytja hér skýrslu sína í upphafi umræðunnar, nefndi það að svo sannarlega er Vatnajökulsþjóðgarður ekki í Garðabænum. Mig langar af þessu tilefni að nefna að Keflavíkurflugvöllur er heldur ekki í Hafnarfirði. Ég velti því fyrir mér af þessu tilefni, af því að ráðherrann nefndi einnig að í lögum væru heimildir fyrir ráðherra að færa til stofnanir sem undir hann heyrðu, hvort það væri ekki bara gráupplagt að færa höfuðstöðvar Isavia úr Hafnarfirði. (umhv.- og loftslrh.: Þú ert að tala við vitlausan ráðherra.) Ég er að nefna bara stjórnsýsluna almennt og yfirleitt, af því að ég hef nefnilega heyrt hæstv. innviðaráðherra segja að það væri ekkert við Isavia að eiga hvað þetta varðar. Er þetta ekki bara sams konar mál? Erum við að setja upp höfuðstöðvar fjarri þeim störfum sem verið er að vinna á tilteknum stöðum? Ég held að í framhaldinu af þessu haldi ég áfram og ýti þessu máli eitthvað áfram. Mér finnst fyndist eðlilegt að við skoðuðum það að ef uppspretta starfanna er á einhverjum stað þá séu höfuðstöðvarnar þar líka. Ég vildi bara nefna það af þessu tilefni af því að Vatnajökulsþjóðgarður er svo sannarlega ekki í Garðabæ.

Af því að við erum að tala um rekstur þjóðgarðs þá langaði mig líka að nefna annað. Út kom skýrsla Ríkisendurskoðunar 2019 sem hafði ýmislegt um rekstur þjóðgarðsins að segja. Þar mátti finna ýmislegt sem var ábótavant. Ég veit ekki hvort búið sé að laga það en á það var meðal annars bent að hluti af starfseminni væri í Garðabæ og annað í Fellabæ. Er þá ekki rétt að öll starfsemin sé á einum stað, hvort heldur sem er á Höfn eða í Fellabæ eða Garðabæ, þannig að færsla á bókhaldi sé ekki höfð á einum stað en einhver stjórnun á öðrum stað? Er verið að leysa þetta vandamál með því að færa höfuðstöðvarnar á Höfn ef síðan ákveðinn hluti af starfseminni er í Fellabæ? Er verið að koma til móts við ábendingar Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar? Í skýrslunni kemur fram að ef yfirstjórn fjármála og reksturs sé skipt á milli starfsstöðva sé hætta á að verkferlar verði óskilvirkir og yfirsýn skert eins og komið hefur í ljós. Ég velti fyrir mér hvort það vandamál sé leyst með þessu af því að áfram verður hluti starfanna í Fellabæ og hinn hlutinn á Höfn.