Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðan á bráðamóttöku LSH.

[13:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. „Vonin bara dó í gær“, sagði Soffía Steingrímsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur í viðtali við Morgunblaðið eftir erfiðan dag á bráðamóttökunni. Hún lýsir fullri biðstofu allan daginn, upp undir 100 sjúklingar, og þar af um 30 sem hefðu átt að vera annars staðar á yfirfullum deildum spítalans. Meira en fimm klukkustunda bið var í einhverjum tilfellum eftir þjónustu. Soffía er í hópi þeirra hjúkrunarfræðinga sem hafa gefist upp á ástandinu sem mörg hafa lýst á sama veg. Önnur tilvitnun, með leyfi: „Ástandið síðustu vikur hefur verið verra en nokkurn tíma í sögu bráðamóttökunnar, fleiri bíða innlagnar á sama tíma og það kvarnast upp úr hópi starfsfólks“, sagði yfirlæknir deildarinnar, Hjalti Már Björnsson. Þetta ástand er auðvitað ekki sæmandi ríkri, vel menntaðri og nútímalegri þjóð, herra forseti. Í umsögn Landspítalans um fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 er bent á mikið álag spítalans vegna Covid og hækkandi aldurs þjóðarinnar. Vegna viðvarandi álags sé mönnunarvandi spítalans mikill og það þurfi að gera átak til að vinna á biðlistum. En við skulum aldrei gleyma því að á biðlistum bíða þjáðir sjúklingar eftir að fá sjálfsagða læknisþjónustu. Í umsögn spítalans segir líka, með leyfi:

„Verði það niðurstaðan, að fjárveitingar til rekstrar Landspítala hækki um 1% á næsta ári, 2% næstu tvö ár þar á eftir og 1,3% árin þar á eftir, er ljóst að Landspítali mun ekki ná þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er í kjölfar COVID-19 og mun eiga mjög erfitt með að mæta þeim miklu áskorunum sem spítalinn stendur frammi fyrir. Slík niðurstaða yrði mikil vonbrigði.“

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki full ástæða til þess að endurskoða fjármálaáætlun í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á bráðamóttöku Landspítalans og ætla spítalanum meira fé.