Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðan á bráðamóttöku LSH.

[13:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Auðvitað leysast ekki öll vandamál með auknu fé en það vantar, og ég vísa bara í umsögn Landspítalans sjálfs við fjármálaáætlunina. Samfylkingin hefur ekki farið með málefni heilbrigðisþjónustunnar í landinu eða fjármál ríkisins undanfarin ár. Það hefur hæstv. ráðherra gert frá 2013, yfirleitt sem fjármálaráðherra en einnig sem forsætisráðherra. Á þeim tíma hafa stjórnarflokkarnir lagt niður skimanir Krabbameinsfélagsins án þess að vera með einhverjar áætlanir um hvað ætti að taka við. Við erum að fara að ræða núna skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu sem er áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Við erum að missa okkar besta fólk vegna vanfjármögnunar og vegna skorts á yfirsýn. Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að líta í eigin barm vegna þess að ríkisstjórnum hans hefur ekki tekist að leysa þann vanda sem hann vísar kannski til að hægt væri að leysa.