Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um umsókn Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Ég vil árétta það hér að ég hef lýst yfir skýrri afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessarar umsóknar sem er byggð á lýðræðislegri niðurstöðu þjóðþinga Svíþjóðar og Finnlands, þjóða sem eru meðal okkar nánustu vinaþjóða í þessum heimi. Forsætisráðherrar Íslands, Noregs og Danmerkur, sem öll eru innan bandalagsins, lýstu því opinberlega yfir þegar þessar umsóknir voru lagðar fram að við myndum greiða fyrir þeim í ríkjum okkar. Ég hef enn fremur lýst þeirri afstöðu á fundum mínum með forsætisráðherrum Svíþjóðar og Finnlands. Ég mun því styðja þessa tillögu sem snýst um umsóknir þessara ríkja að Atlantshafsbandalaginu og raunar hef ég þá trú að þessi ríki muni vinna mjög náið með öðrum Norðurlöndum innan Atlantshafsbandalagsins þar sem við Íslendingar höfum talað mjög skýrt fyrir friðsamlegum lausnum og afvopnun. Ég trúi því að þar muni norrænu ríkin tala saman mjög skýrri röddu ef marka má utanríkisstefnu allra þessara ríkja. En mestu skiptir að hér er um að ræða lýðræðislega niðurstöðu okkar nánustu vinaþjóða.