Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[16:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu, mjög nauðsynlega úttekt og löngu tímabæra en því miður svarta. Eitt barn á bið eftir geðheilbrigðisþjónustu er einu barni of mikið. Hvað eigum við að segja við barn sem hefur beðið eftir því í þrjú ár að fá nauðsynlega þjónustu, barn sem er kannski að byrja skólagöngu? Er hægt að segja við það: Þú þarft að bíða þangað til þú verður 10 ára, 11 ára eða 12 ára? Og skólagangan, hvernig endar hún? Við hugsum hlutina ekki alveg til enda vegna þess að á sama tíma og þetta er í gangi erum við að leika okkur að lífi viðkomandi barns. Við vitum ekkert hvað verður um viðkomandi barn ef það fær ekki hjálp til að geta stundað skólanámið. Allar líkur benda til þess að viðkomandi barn eigi eftir að lenda á milli einhvers staðar í kerfinu og það á jafnvel eftir að lenda á örorku. Ætlar ríkisstjórn þess tíma þá að segja: Heyrðu, við þurfum að senda viðkomandi í starfsendurhæfingu? Er þá ekki betra að grípa inn í málin strax, sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ekkert barn fari á slíkan biðlista, að ekkert barn þurfi að ganga í gegnum þær hörmungar sem fylgja því að þurfa að bíða kannski í tvö til þrjú ár eftir þjónustu sem það á fullkomlega rétt á og það strax?

Það er síðan annað í þessu kerfi og það er kostnaðurinn. Eins og staðan er í dag þá er gróf mismunun í gangi. Þeir sem hafa efni á því geta keypt sig fram fyrir í röðina. Þeir sem hafa ekki efni á því sitja eftir. Kostnaðurinn við einn tíma nálgast 20.000 kr. Það er gífurlegur kostnaður sem því miður er mörgum ofviða. Ég veit til þess að foreldrar hafa tekið þá ákvörðun að borga sig frekar út fyrir kerfið en að bíða í eitt, tvö eða þrjú ár eftir þeirri þjónustu sem þau vita að barnið þeirra þarf lífsnauðsynlega á að halda og getur skipt sköpum fyrir framtíð þess. Biðlistarnir lengjast og það er langt frá því að vera ásættanlegt.

Snúum okkur að skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í henni kemur fram að mannekla í geðheilbrigðiskerfinu er viðvarandi vandamál og skortur á sérhæfðu starfsfólki. Þá eru svokölluð grá svæði í kerfinu einnig vandamál og allt of langir biðlistar, eins og ég kom að áðan. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu er landlægt vandamál og enn búa margir við skert aðgengi að þjónustu á landsbyggðinni. Þarna vantar betri samvinnu, þverfaglegri vinnubrögð og samfellu í þjónustu. Eitt aðalvandamálið, að mati Ríkisendurskoðunar, er mikill skortur á fagmenntuðu starfsfólki. Það stendur geðheilbrigðismálum aðallega fyrir þrifum. Vegna mikils skorts á geðhjúkrunarfræðingum og geðlæknum er mjög erfitt að manna vaktir og þá sérstaklega þar sem verkefnum hefur fjölgað mikið og biðlistar lengjast og lengjast. Því miður er þetta hálfgerð falleinkunn fyrir þá ríkisstjórn sem er við völd og þá sem eru að reyna að koma þessu kerfi í lag. Mikilvægt er að fjölga menntuðu fagfólki í stéttinni og starfsaðstæður og starfsumhverfi þarf að vera þannig að það laði fólk til starfa.

Staðreyndin er því miður sú að við erum að búa til ný kerfi, við erum að færa geðheilbrigðisþjónustuna inn á heilsugæslustöðvarnar. En sá vandi hefur fylgt því að ekki er nóg af starfsfólki. Fólk er að fara úr teymum sem það þyrfti helst að vera í til þess að vinna á biðlistum og að færast yfir í heilsugæsluna og það vantar fólk. Það er ekki nóg um það að nýtt starfsfólk sé að koma inn í kerfið. Þetta er vandamál sem við höfum vitað af lengi en einhverra hluta vegna virðist enginn hafa fundið lausn á því eða hafa farið kerfisbundið í að reyna að sjá til þess að við höfum nóg af menntuðu fólki. Að mati Ríkisendurskoðunar eru miklir veikleikar í kerfinu, það sé óljóst hver eigi að veita tiltekna þjónustu og samfella í þjónustu sé þá rofin. Einnig þurfi að útrýma gráu svæðunum þar sem fólk lendir á milli kerfa og fær ekki þá þjónustu sem það á rétt á.

Ég hef orðið var við að fólk sem m.a.s. er inni í heilbrigðiskerfinu fær ekki þá þjónustu sem það þarf á að halda, það lendir einhvern veginn þarna á milli. Það er enginn sem virðist geta tekið að sér að hjálpa viðkomandi sem á við geðræn vandamál að stríða, t.d. að grípa hann á þann hátt að koma honum inn á örorkukerfið eða í endurhæfingarkerfið, að viðkomandi hafi eitthvert fast land undir fótum, hafi einhverjar fastar tekjur og eigi einhverja möguleika. Inn í kerfið vantar greiningar, utanumhald, samþætta þjónustu, fækkun á gráum svæðum í geðheilbrigðiskerfinu. Það þarf að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og það þarf að vanda til verka. Það er furðulegt hvað Ríkisendurskoðun var í miklum erfiðleikum með að fá svar við spurningum sínum frá ráðuneytinu um kostnað og að brugðist yrði við beiðni um gögn. Það segir sína sögu að sú staða kom upp að það virðist eins og kerfin tali ekki saman. Það virðist eins og ekki sé búið að skilgreina það og koma hlutunum þannig fyrir að hægt sé að fara á einn stað og komast að öllum gögnum. Niðurstaðan er sú að stjórnvöld skortir yfirsýn yfir stöðu geðheilbrigðismála í landinu. Það er skortur á upplýsingum, greiningu á þeim. Það vantar upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa glímt við geðraskanir á Íslandi. Það þarf nákvæma skrá um geðsjúkdóma á Íslandi, þ.e. heildstæðar upplýsingar um tíðni geðsjúkdóma eða geðraskana þó þannig að þær uppfylli kröfur laga um persónuvernd, um málefnalegan tilgang og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga. Það er óásættanlegt að tölulegar upplýsingar um þvinganir og nauðungarvistanir í geðheilbrigðisþjónustu eða staðlaðar skrár í slíkum tilvikum vanti, að það sé ekkert verið að halda utan um það. Eins og við höfum komið að eru gráu svæðin einn furðulegasti hlutinn af þessu, þ.e. að ekki virðist hafa tekist að kortleggja þann hóp sem er að detta inn á milli þessar gráu svæða eða á milli kerfa. Það var verið að setja á fót nefnd um það en það svar kom fram við fyrirspurn minni í nefndinni að ekki væri vitað hvað hefði orðið um þá nefnd, hvort hún sé að störfum eða hvað sé í gangi þar. Mér skilst þó alla vega, sem er kannski jákvætt í þessu, að unnið hafi verið faglega að því sem gert var í sambandi við börn, að taka á þessum gráu svæðum.

Hér er ákveðinn hópur sem á við fjölþættan vanda að glíma og það virðist vera lenska í kerfinu að því fjölþættari vanda sem viðkomandi á í því verra sé að fá einhvern einn aðila til þess að taka á vandanum. Kerfin virðast einhvern veginn vilja henda þessum einstaklingum á milli sín vegna þess kostnaðar sem af því hlýst að taka á vandanum. Það segir okkur að það er eitthvað mikið að ef við getum ekki tryggt fjármagn til að ekki þurfi að neita fólki um þjónustu eða að ýta þurfi því milli kerfa vegna þess að kostnaðurinn sé of mikill. Þá er sú hætta til staðar að viðkomandi detti á milli kerfa og ég tala af reynslu, það er dauðans alvara. Við erum þar að tala um grafalvarlegt mál. Við erum að tala um alvarlega veikt fólk og við getum ekki á nokkurn hátt réttlætt það að þeir einstaklingar séu í þessari aðstöðu.

Ríkisendurskoðandi setti upp sjö atriði sem hann taldi að skoða þyrfti sérstaklega og það væri það sem þyrfti að einbeita sér að. Hann nefndi þar fyrst að efla þyrfti söfnun upplýsinga og greiningu og utanumhald eins og ég talaði um hér áðan. Það er algerlega óásættanlegt að við séum þar stödd í þessu kerfi að við getum ekki haft allar upplýsingar undir höndum og getum ekki greint vandann eða haft utanumhald um það hversu margir eru í kerfinu, hversu margir eru á gráu svæði eða hversu margir glíma við fjölþættan vanda. Það er auðvitað grafalvarlegt að við séum ekki heldur búin að kortleggja eða skrá hverjir það eru sem verða fyrir þvingunum eða nauðungarvistun í geðheilbrigðiskerfinu. Það er auðvitað eitthvað sem er fáránlegt og það verður að taka á því.

Í öðru lagi þarf að tryggja geðsjúkum samfellda þjónustu. Þetta ætti að vera sjálfsagt mál. Það er eiginlega óskiljanlegt fyrirbrigði að það þurfi að hafa það skriflegt að tryggja eigi geðsjúklingum samfellda þjónustu. Það er einmitt það sem þarf og það er einmitt það sem mun skila árangri. Í þriðja lagi þarf að útrýma þeim gráu svæðum í heilbrigðisþjónustunni sem ég nefndi. Það er lífsnauðsynlegt að fara í þá vinnu og sjá til þess að það svæði sé vel skilgreint. Það þarf að búa til þannig kerfi að ekki nokkur maður þurfi að lenda í því ömurlega ástandi að verða á milli þessara kerfa. Ég segi bara: Guð hjálpi þeim einstaklingi sem er þar og fjölskyldu viðkomandi. Það er ekki góð staða til að vera í og ætti ekki að þurfa að koma til. Í fjórða lagi þarf að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Auðvitað þarf að gera það, það ætti að vera sjálfsagt mál. Það ætti ekki að þurfa að bæta því við að bæta þurfi aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu og sérstaklega þurfi að sjá til þess að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda án nokkurrar biðar. Það er óþolandi, eins og ég hef komið inn á, að sú staða skuli vera uppi að 1.000 börn séu á biðlista eftir ADHD-greiningu og að við skulum vera með þriggja ára biðtíma fyrir þau. Ég segi fyrir mitt leyti: Það er óskiljanlegt. Því miður fjölgar þeim sem eru á biðlista og biðtíminn lengist. Samt er alltaf verið að tala um að verið sé að búa til nýtt kerfi utan um það að grípa börn fyrr, búa til kerfi sem eigi að virka eftir tíu ár. Það er allt of seint fyrir stóran hóp barna. Við erum með það stóran hóp barna sem þarf þjónustu núna. Mönnun og sérhæfing starfsfólks, það hefði átt að vera mjög einfalt mál að eiga við það en einhvern veginn virðist það hafa gleymst í kerfinu. Fólk virðist bara vera að færast á milli kerfa en ekki er um fjölgun að ræða þegar stofnað er nýtt kerfi eins og inni á heilsugæslunum. Tryggja þarf tilvist geðheilsuteyma. Það verður langbest gert með því að hægt sé að manna þessi teymi án þess að þurfa að taka mannskap annars staðar frá til að leysa þann vanda. Sjöunda atriðið snýst um það að vanda þurfi aðgerðaáætlanir og eftirfylgni þeirra. Það verður bara að segjast eins og er að sú staðreynd að það skuli þurfa að benda okkur á þetta segir okkur að kerfið er að fá falleinkunn, því miður.

Við eigum aldrei að sætta okkur við kerfi þar sem ekki eru hundruð heldur þúsundir á bið, kerfi þar sem fólk hefur ekki efni á þeirri þjónustu sem það þarf á að halda og börn sitja eftir nema þau eigi efnaða foreldra, kerfi sem segir við einhvern og þá sérstaklega við börn: Þú ert á bið næstu 36 mánuði eða lengur. Eitt barn á bið er einu barni of mikið. Svo einfalt er það. Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll og það á að vera okkar forgangsmál að taka á því.