Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna um þetta mjög svo mikilvæga mál. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði varðandi hindranir í geðheilbrigðisþjónustu þar sem greina má innbyggða fordóma, því miður. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ákveðin mismunun sé innbyggð í geðheilbrigðiskerfið á Íslandi og ljóst að ekki sitji allir við sama borð. Aðgengi að þjónustu ráðist gjarnan af efnahag, tegund geðvanda og búsetu. Mismunun felist einnig í því að tilteknir hópar lendi á svokölluðu gráu svæði og fái ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna óljósrar ábyrgðar- og kostnaðarskiptingar, skorts á fjármagni, mönnun og úrræðum eða vegna annarra aðstæðna.

Ég vil af þessu tilefni spyrja hv. þingmann út í það sem hefur verið samþykkt hér á Alþingi, þ.e. niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu úr Sjúkratryggingum Íslands. Þetta er mál, frumvarp, sem var samþykkt hér á þingi fyrir nokkrum árum, en því miður hefur ekki fengist fjármagn í þessa þjónustu þannig að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd. Ef maður á að taka hópa sem falla algerlega utan borðs þarna þá er það ekki millistéttarfólk, sem getur sótt stuðning til stéttarfélaga sinna, heldur einmitt þeir sem eru utan vinnumarkaðar, námsmenn sem ekki hafa stéttarfélög til að leita til og þeir sem eru kannski í viðkvæmustu stöðunni.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þetta og hvort við eigum ekki að reyna að taka höndum saman og fjármagna þessa nauðsynlegu þjónustu.