Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála því að hvort tveggja er hluti af þessari nauðsynlegu geðheilbrigðisþjónustu sem við verðum að fara í en líka hluti af forvörnum. Með því að grípa fyrr inn, áður en vandinn er orðinn mjög djúpstæður — nú er ég ekki að segja að sálfræðingar geti ekki unnið að djúpstæðum vanda en það má grípa inn í með minna flóknum verkferlum og verkfærum þegar um er að ræða sálfræðiþjónustu en að fara með það alveg inn í heilbrigðiskerfið. Ég held að þessi hluti forvarna skipti gríðarlega miklu máli. Ég held að við verðum að fara að tileinka okkur að horfa á þetta sem fjárfestingu í fólki en ekki útgjöld. Við erum að fjárfesta í mannfólkinu sem verður svo miklu ódýrara á öllum öðrum stigum samfélagsins.

Ég hnaut um annað í skýrslunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun sýndi þeim skilning sem þurftu frest til að svara fyrirspurnum vegna úttektarinnar en lýsir þó áhyggjum yfir hversu erfiðlega heilbrigðisráðuneyti gekk að svara spurningum, útvega kostnaðartölur og bregðast við gagnabeiðnum innan skynsamlegra tímamarka. Mátti Ríkisendurskoðun bíða mánuðum saman eftir svörum við tilteknum spurningum, þrátt fyrir ítrekanir, en einnig gekk erfiðlega að finna fundatíma. Ríkisendurskoðun telur jafnframt sum svör ráðuneytisins hafa verið óskýr og illa rökstudd þegar þau loks bárust.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi verið rætt á fundi með Ríkisendurskoðun, hver svörin hafi verið og hvort þetta sé kannski líka einn angi af þessum inngrónu fordómum gagnvart þessari tegund af heilsufarsáskorunum, þ.e. að við virðumst einhvern veginn hafa svo litla yfirsýn yfir það hvað við erum að gera í þessum málaflokki.