Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þessi skýrsla er svo góð af því að það er hægt að grípa svo víða niður í henni. Þar sem stendur í henni er miklu betra en það sem maður talar endilega frá sínu hjarta því að þarna eru staðreyndir. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa aðeins upp úr skýrslunni:

„Fjölmiðlar fjalla reglulega um sjúklinga sem vísað er frá geðdeild Landspítala án þess að fá þjónustu sem þeir telja við hæfi. […] Ríkisendurskoðun óskaði eftir upplýsingum um fjölda frávísana frá geðþjónustu Landspítala en sjúkrahúsið heldur ekki utan um slíkar tölur. […] Því er ekki hægt að skoða þróun slíkra tilfella, ástæður, afdrif viðkomandi eða annað. […] Auk frávísana hafa fjölmiðlar undanfarin misseri fjallað um tilfelli þar sem sjúklingar eru fastir í geðþjónustu Landspítala vegna skorts á viðeigandi úrræðum.“

Og áfram er haldið:

„Í viðtali við RÚV í júlí 2021 sagði yfirlæknir réttargeðdeildarinnar á Kleppi að réttindi væru brotin á manni sem hefur verið fastur þar árum saman vegna skorts á viðeigandi sérúrræðum. Maðurinn hlaut framheilaskaða og hefur verið á geðdeild í fjögur ár þar sem ekki er til staðar sérhæfing í meðferð heilaskaðaðra. Reykjavíkurborg vísar á ríkið þar sem öryggisvistun sé ekki á borði sveitarfélaga. Málefni mannsins hafa verið á borði félagsmálaráðuneytis en engin lausn er í sjónmáli því ágreiningur ríkir um hvort ríki eða sveitarfélög eigi að sjá um kostnað vegna meðferðar heilaskaðaðra. Maðurinn líður fyrir stöðuna á meðan og kostnaðurinn fellur í þessu tilviki á heilbrigðiskerfið, í einu dýrasta úrræði sem til er. Mun dýrara er að vista sjúklinga á réttargeðdeild en í búsetuúrræði í samfélaginu eða um þrisvar til tíu sinnum dýrara samkvæmt yfirlækninum.“

Nú geri ég ráð fyrir að aðeins hafi verið fjallað um þetta í hv. velferðarnefnd, eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar sem hv. þingmaður situr. Er þetta ekki eitthvað sem við verðum að bregðast við af því að þetta heitir sóun en ekki fjárfesting?