Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:54]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið. Þarna kemur hv. þingmaður einmitt inn á atriði sem ég hef svolítið skoðað og haft áhuga fyrir. Ég sat með hv. þingmanni í velferðarnefnd í fyrra og við fjölluðum um þessi mál. Það er alveg rétt, þarna er kannski ekki hægt að beita snemmtækri íhlutun eða öðru. En þessir sjúklingar sem hafa orðið fyrir framheilaskaða eru svolítið útundan í kerfinu, það er bara staðreynd. Það var kannski ekki fjallað sérstaklega um þetta í nefndinni í sambandi við þessa skýrslu. En þetta er bara stórt gat. Þetta er ekki grátt gat, þetta er svart gat sem þessir einstaklingar eru staddir í. Við vitum að þetta hefur verið svolítið bitbein í Grábókar-nefndinni sem fjallar um skiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og það er engin niðurstaða komin í það. Ég hef verið í samtali við doktor í sálfræði sem er nýráðinn í Háskóla Íslands sem er að setja af stað nám varðandi þetta og aðra nálgun, því að sú nálgun sem við höfum beitt hér á landi og á Norðurlöndum er kannski ekki nægjanlega góð fyrir þessa einstaklinga. En ég tek alveg undir það að þessir einstaklingar eru staddir á mjög svörtum stað. Því miður erum við ekki að taka utan um þá í þeirri stefnu sem ég vitnaði áður í, heldur þurfum við að taka sérstaklega utan um þessa einstaklinga. Bæði er þeim útvísað frá Landspítalanum og á fleiri stöðum og komast kannski aldrei inn heldur.