Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:22]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þessi samskipti eru farin að minna mann útvarpið í gamla daga, tæknin er eitthvað að stríða okkur sögðu menn þegar þeir ýttu á vitlausa takka einhvers staðar. En varðandi það sem hv. þingmaður kemur inn á, þetta er nefnilega svolítið sérstakt. Auðvitað er ekki hægt að skamma ríkisstjórnina fyrir þetta. Alþingi er með fjárveitingavaldið. Bara ef ríkisstjórnin þekkti einhvern á þingi sem gæti kippt í einhverja spotta og lagað þetta. Þetta er ábyrgðarflóttinn sem ég er alltaf að tala um. Það vantar fjármagn — þið verðið þá að tala við þingið, segir framkvæmdarvaldið. Mönnunarvandi — hann kom bara einhvern veginn til okkar og við berum ekki ábyrgð á honum. Þetta er auðvitað staða sem menn eru í þegar þeir eru búnir að fara með völd í tilteknum málaflokkum, ekki bara í eitt eða tvö ár heldur jafnvel í áratugi. Hæstv. fjármálaráðherra, sem við vitnum hér til, er búinn að vera óslitið í fjármálaráðuneytinu frá 2013, fyrir utan að hann var nokkra mánuði í forsætisráðuneytinu þar sem mér skilst að menn fari líka með einhver völd. Ég get ekkert sagt annað en að þetta sé bara svona klassískur ábyrgðarflótti þeirra sem geta a.m.k. ekki komið með þá skýringu að þeir séu búnir að vera svo stutt með málaflokkinn að gefa verði þeim andrými til að bregðast við.

Ég vona að menn einhendi sér í það að standa við það loforð sem Alþingi gaf þjóðinni og fólki í viðkvæmri stöðu um það að sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd. Það kostar vissulega einhvern pening en eins og við vorum að ræða hér áðan þá liggur það alveg fyrir að einhvers konar íhlutun á þeim enda sparar útgjöld síðar meir. Ég held að það séu eiginlega allir sammála um það. Það á reyndar á við um ansi margt í þessum kerfum okkar, að það að bregðast fyrr við dregur auðvitað úr kostnaði sem annars myndi falla til síðar.