Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið við fyrirspurn hv. þingmanns er ofur einfaldlega: Já, ég er alveg sammála því að leggjast þurfi vel og rækilega yfir það. Ég fór aðeins yfir þetta í ræðu minni áðan. Í hinum fullkomna heimi þyrftum við ekkert að vera með kerfi ívilnana eða eitthvað þess háttar. Þá myndi mannskapurinn bara streyma þangað sem þörfin væri mest. En við erum hér að tala um heilbrigðisþjónustu, við erum að tala um geðheilbrigðisþjónustu, sem er ákaflega mikilvæg þjónusta. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að það vantar a.m.k. 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, tíu sérmenntaða geðhjúkrunarfræðinga og tíu geðlækna ásamt fleira fagfólki — þetta er samkvæmt óformlegu mati Landspítala og það sem vantar þá inn í geðþjónustu spítalans. Þegar staðan er þessi þurfum við auðvitað að velta fyrir okkur einhvers konar viðbragði. Ef við veltum ekki fyrir okkur viðbragði þá gerist það annaðhvort að ekkert breytist eða þá að staðan hreinlega versnar. Þá erum við, með því að taka ákvörðun um að velta ekki fyrir okkur einhvers konar ívilnunum eða að reyna einhvern veginn að stýra fólki í þessar áttir, bara svolítið að gefast upp, myndi ég telja. Það væri auðvitað langskemmtilegast að svara þessari spurningu, ef það væri hægt, ef heimurinn væri fullkominn, á þann veg að það ætti ekki að þurfa neinar ívilnanir, fólkið finni sér bara sinn farveg og allt leysist þetta einhvern veginn af sjálfu sér. En það er bara eins með þetta og annað, þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og fleiri þáttum, að við þurfum stundum að standa fyrir einhvers konar átaki til þess að hleypa einhverju af stokkunum. Og þegar við erum að tala um viðkvæma þjónustu eins og geðheilbrigðisþjónustu, og það vantar fólk í tugatali til að sinna fárveiku fólki, þá er ég svo sannarlega til samtals um að nota megi þau kerfi og úrræði sem við höfum til að reyna að laða fólk í nám og í framhaldinu til starfa á þessum mikilvægu póstum.