Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu, álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar, hefur, sem framsögumaður nefndarálits meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, farið yfir meginefni skýrslunnar. Ég ætla ég svo sem ekki að nota ræðu mína hér til að rekja allt álitið aftur en það eru nokkur atriði sem mig langar að draga fram í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég segja að ég tel skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu gríðarlega gagnlega. Hún er ítarleg og löng og þar eru settar fram ábendingar sem ég tel mikilvægt að þeir angar stjórnkerfisins og samfélagsins, sem um ræðir hverju sinni, og málin heyra undir, taki til skoðunar. Í raun er það svo að til að mynda þau ráðuneyti sem nefnd eru hafa svarað því að þau taki skýrsluna til sín og til skoðunar.

Það hefur komið fram hér í umræðum að sumum finnist skýrslan vera algjör falleinkunn fyrir íslenska geðheilbrigðisþjónustu. Ég tel svo ekki vera þó svo að vissulega sé bent á það sem betur megi fara. Umræða um geðheilbrigðismál, hvernig þeim er fyrir komið, hefur sem betur fer verið að breytast. Það á við um faglega þjónustu heilbrigðisstofnana við þá sem þurfa að nota geðheilbrigðisþjónustu en einnig á það við um sýn sveitarfélaga og umræðuna í samfélaginu, mat okkar sem byggjum þetta samfélag. Sýn okkar á geðheilbrigðismálin hefur sem betur fer verið að breytast. Við erum að taka það mun alvarlegar að geðheilsa skiptir máli og að það skipti máli að þau sem þurfi fái viðeigandi þjónustu. Auðvitað leiðir það til þess að gera þarf breytingar á því hvernig við höfum gert hlutina, og einnig þarf að bæta úr.

Það kemur fram í skýrslunni og er rakið hér í álitinu að að mati Ríkisendurskoðunar sé skipulag geðheilbrigðisþjónustu í megindráttum í samræmi við stefnu stjórnvalda en ákveðnir vankantar séu á kerfinu sem draga úr árangri við framkvæmd. Svo er það rakið og talið upp hvar þessir helstu vankantar eru og ég tel mikilvægt að við tökum þessar ábendingar alvarlega og vinnum í þeim. Jafnframt kemur fram að undanfarin ár hafi verið gerðar nokkrar grundvallarbreytingar á geðheilbrigðisþjónustu sem hafi gefið góða raun en enn sé rúm til frekari umbóta. Þar er nefnt að það hafi verið til bóta að lögfesta skiptingu heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annað og þriðja stig en að skýra þurfi betur mörkin þar á milli og skilgreina hvaða þjónustu eigi að veita á hverju stigi sem og að tryggja þurfi betri samfellu og samhæfingu milli þjónustustiga.

Þar sem það hefur verið nefnt hér í umræðunni að við í Vinstri grænum höfum viljað hreykja okkur af því sem gert hefur verið í heilbrigðismálum og í geðheilbrigðismálum þá tel ég að þetta sé einmitt eitt af því sem hefur verið gert, sem skiptir gríðarlega miklu máli. Einnig er fjallað um það í skýrslu Ríkisendurskoðunar að tilkoma geðheilsuteyma sem og aukið framboð sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum sé önnur grundvallarbreyting sem hefur aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þetta er eitthvað sem við í Vinstri grænum lögðum einmitt áherslu á og við fögnum því auðvitað að fyrir nefndinni var lýst almennri ánægju með tilkomu geðheilsuteymanna og þá þverfaglegu nálgun sem unnið er eftir í teymunum en vissulega er bent á að styrkja þurfi þau enn frekar í sessi. Bent er á að fulltrúar frá Félagsþjónustu ættu að koma að borðinu. Ég tel þetta mikilvægt og ég tel þetta sýna fram á að mörkuð hafi verið stefna sem skiptir máli. Róm var ekki byggð á einum degi og hér þarf að halda áfram, en við erum með góðan grunn sem skiptir máli. Það er líka mikilvægt að taka það jákvæða út úr svona skýrslu og byggja ofan á það, ekki síður en að taka til sín það sem bent er á að betur mætti fara.

Mannekla er eitt af því sem nefnt er og ég tel að við hér á Alþingi þurfum m.a. að velta því fyrir okkur hvernig við getum tekið á því. Það er algerlega ljóst að það vantar fleira starfsfólk til að vinna í heilbrigðisþjónustunni. Við tölum mjög oft um skort á hjúkrunarfræðingum og hann er svo sannarlega til staðar, en það sama gildir einnig um fleiri fagstéttir. Mér finnst mikilvægt að við hugsum í lausnum í því hvernig við getum gert starfsumhverfið aðlaðandi til að fólk kjósi að mennta sig í þessum greinum en ekki síður þannig að fólk hafi áhuga á því að vinna síðan við það sem það hefur menntað sig í. Mér finnst vel koma til greina að vera með einhvers konar hvata í því kerfi. Þetta hefur líka stundum verið rætt í samhengi við það að fjölga heilbrigðismenntuðu starfsfólki á landsbyggðinni. Mér finnst klárlega að við eigum að taka þetta til skoðunar og gera breytingar, og þetta er mikilvæg ábending.

Talsvert var fjallað um það í skýrslunni, og talsvert rætt um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að efla þurfi utanumhald og greiningu og jafnvel söfnun á upplýsingum. Það skiptir auðvitað máli að hægt sé að taka tölfræði út úr gögnunum þannig að við vitum hver þróunin er að verða þegar kemur að því að vita eitthvað um það hverjir það eru sem leita eftir geðheilbrigðisþjónustu. Þá fannst mér ekki síður mikilvægt, sem komið er inn á í skýrslu Ríkisendurskoðunar, það sem varðar skort á upplýsingum um beitingu þvingana og nauðungarvistunar. Þetta eru náttúrlega alveg gríðarlega mikil inngrip í líf fólks og auðvitað þarf, þegar svo drastískum úrræðum er beitt, að vera skýr lagarammi um það hvenær grípa megi til einhvers konar þvingana og ekki síður um að það sé kirfilega skráð. Þetta hefur verið rætt hér, m.a. í samhengi við athugasemdir frá umboðsmanni Alþingis á grundvelli OPCAT-eftirlits, og lögð hafa verið fram frumvörp frá heilbrigðisráðherrum, alla vega tveimur þeirra, en meðferð þeirra er ekki lokið hér á þingi og hefur þurft að vinna þau enn betur.

Talsvert var rætt um það í nefndinni að geðheilbrigðisþjónusta og reglur, það hvernig hugað er að mannréttindum fólks í samræmi við það sem hefur komið fram í ábendingum frá umboðsmanni Alþingis, þurfi að vera í takti. Það er kannski ekki beinlínis fjallað um þetta í skýrslunni en ég tel að við sem Alþingi þurfum að sjá til þess að hlutirnir vinni saman, það er eitthvað sem ég tel að við eigum algerlega að taka til okkar. Einnig kom fram í umræðum í nefndinni að þrátt fyrir almenna ánægju með störf geðheilsuteymanna, eins og ég fór yfir hér áðan, þá sé hvati til að vísa erfiðum málum frá. Þar var nefnt dæmi um fólk með fjölþættan vanda eða fólk með þroskahömlun, að það geti átt erfitt með að passa inn í þessi geðheilsuteymi. Ég tel gríðarlega mikilvægt að hugað verði að þessu og að geðheilsuteymin verði efld að þessu leyti. Það er auðvitað í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að fatlað fólk fái heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra.

Það er ýmislegt sem dregið er fram í skýrslunni, bæði það sem hefur verið gert vel en einnig annað sem betur má fara. Ég held að við eigum bara að einhenda okkur í að fylgjast með því að það verði gert, enda höfum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði talað fyrir því að horfa eigi á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi og að það séu hagsmunir okkar allra að lýðheilsa, forvarnir og geðheilbrigðismál séu í forgangi. Við eigum því að taka skýrsluna alvarlega, halda áfram að sjá til þess að unnið sé með það sem vel er gert og bætt enn frekar í. (Forseti hringir.) En við eigum einnig að taka gagnrýnispunktana til okkar og sjá til þess að þar verði gert betur. Ræðutími minn er víst búinn.