Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig reyndar hafa verið mjög gagnrýna í ræðu minni um að það sé margt sem þurfi að gera betur í geðheilbrigðismálum. Mér finnst hins vegar mikilvægt að halda því til haga sem hefur verið gert vel á síðustu misserum þannig að við byggjum á því áfram. Ég nefndi þar atriði sem eru einmitt talin upp í skýrslu ríkisendurskoðanda. Það er því miður þannig að það er alltaf hægt að bæta samfélagið og það er svo sannarlega hægt að bæta kerfið þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Ég tel einmitt að sú áhersla sem verið er að vinna með núna, sem fjallar um það að aðstoða fólk með skerta starfsgetu eða á örorkulífeyri við að finna störf, skipti alveg gríðarlega miklu máli. Það að vera þátttakandi í samfélagi og það að vera þátttakandi á vinnumarkaði er partur af því að vera fullorðinn einstaklingur og búa í samfélagi. Það þarf því að bæta kerfið. Það þarf að auka endurhæfinguna og það þarf að tryggja að fólk fái störf. Nú er vinna í gangi í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem lýtur að því, þannig að mér finnst það bara sanngirni að fjalla um það í þessari skýrslu sem við þurfum að gera betur, og það (Forseti hringir.) er margt, en líka að halda því til haga sem hefur verið að ganga vel og byggja ofan á það.