Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður talaði um mikilvægi geðheilsuteyma og einnig um stefnu og aðgerðir í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem Vinstri græn voru með heilbrigðisráðuneytið. Mig langaði að fara aðeins yfir í það sem kemur fram í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessa lögfestingu á skiptingu heilbrigðisþjónustu í þrjú stig, sem smitast yfir í geðheilbrigðisþjónustuna. Ég vil einnig ræða tilvist geðheilsuteyma inni á heilsugæslunni sem eiga þá, samkvæmt þessari skiptingu, frekar að kljást við annars stigs þjónustuna. Sjúkrahúsið sinnir fyrsta stigs þjónustu en sálfræðingar á heilsugæslu þriðja stiginu, sem eru vægar geðraskanir, áföll, kvíði og annað slíkt. En ef ekki er komið til móts við fólk sem glímir við þá erfiðleika er sá vandi líklegur til að vaxa og stækka og myndi hafa í för með sér — það hefur komið fram í máli ýmissa, síðast hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur — aukna örorku af þessum sökum. Ég velti fyrir mér hversu stórt hlutfall það er, ef ég leyfi mér að teikna þessa mynd upp.

Staðreyndin er sú að í þessari erfiðu stöðu inni á spítalanum og í þjónustu við þá sem glíma við þriðja stigs geðræn vandamál er farið að færa þungann í meðferðinni svolítið niður. Þá er hætt við að þessi fyrsta stigs þjónusta sitji eftir. Ég myndi segja að það væri algjörlega kolröng nálgun í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum núna. Í skýrslunni er talað um að okkur skorti yfirsýn og það er, verð ég að segja, frú forseti, ekkert annað en áfellisdómur yfir okkur sem hér stöndum og þeim sem ráða ferð, (Forseti hringir.) að ofan á allt skorti yfirsýn yfir stöðu mála.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún deili með mér áhyggjum af því að við séum að hliðra til fagfólki og fjármunum milli þessara þriggja stiga (Forseti hringir.) þannig að þessi þjónusta vegna vægari geðraskana verði útundan og það muni springa enn frekar í andlitið á okkur.