Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í síðara andsvari tala aðeins um almannatryggingar og lífeyrisgreiðslur. Við höfum talað í gegnum árin um fjölgun öryrkja en þá hefur umræðan um það verið eins og það sé við öryrkja að sakast að þeim skuli fjölga. En auðvitað er það ekki þannig. Við vitum og erum búin að vita það lengi að stóru hóparnir sem fá örorkulífeyri og örorkugreiðslur eða endurhæfingarlífeyri eru þeir sem glíma við stoðkerfisvanda og þeir sem glíma við geðheilbrigðisvanda. Viðbrögðin hafa alltaf verið, finnst mér, hjá stjórnvöldum þessi: Við verðum bara að breyta örorkumatinu. Við verðum að horfa á starfsgetu, horfa á það sem fólk getur en ekki það sem það getur ekki. Menn einhvern veginn drepa málum á dreif í staðinn fyrir að segja: Bíddu við, það eru svona margir hér sem eru með stoðkerfisvandamál. Þá verðum við að bæta vinnuvernd til að reyna að koma í veg fyrir það. Svo er hinn stóri hópurinn, geðheilbrigðisvandamál, þá verðum við auðvitað að bæta geðheilbrigðisþjónustuna til þess að koma í veg fyrir nýgengi.

Núna kemur fram í þessari skýrslu að þeir einstaklingar sem eru óvinnufærir að hluta eða öllu leyti sökum geðraskana árið 2020 eru 8.300 manns. Það er mikil sóun í því að reyna að hjálpa ekki fólkinu og koma því til virkni. Lífeyrisgreiðslurnar sem eru greiddar til fólks með geðraskanir eru upp á 26,6 milljarða á ári og fjölgunin hefur verið 30% á meðan fjölgun íbúa er 15%. Þá hljóta aðgerðir stjórnvalda að vera í þá veru að koma í veg fyrir þennan vanda og (Forseti hringir.) aðstoða fólkið sem glímir við hann og koma í veg fyrir að fleiri veikist. (Forseti hringir.) En umræðan er alltaf einhvern veginn þannig að það er eins og (Forseti hringir.) öllum blöðum sé hent upp í loft og sagt: Við skulum breyta öllu starfsgetumati, þá verður allt miklu betra.