Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er áhugaverð nálgun hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur. Við höfum um árabil tamið okkur að tala um mikilvægi lýðheilsu á tyllidögum, gert mikið úr því, jafnvel búið til stefnur og talað um að mögulega ættum við meira að segja að setja einhverja peninga í það að skilja þessi mál. Núna stöndum við frammi fyrir því að tveir helstu flokkarnir sem valda því að fólk neyðist til að fara á endurhæfingarlífeyri eru akkúrat nátengdir lýðheilsu. Það eru stoðkerfisvandamál og það eru geðraskanir sem eru áunnar að mörgu leyti vegna einhverra umhverfistengdra atriða. Þannig að auðvitað segir öll skynsemi okkur, fyrir utan bara mannúðina í þessu máli, að þarna á áherslan að vera. Mér finnst það vera oft þannig sem fólk talar en þegar á reynir — og ég hef stundum velt því fyrir mér hvort við séum þarna að horfa á þetta klassíska vandamál stjórnmálanna — þá plástrar einhver öðrum megin. Og það er eitthvað sem hægt er að slá sér upp á fyrir næstu kosningar eða fyrir næsta hlé eða fyrir næsta fund, hvað það er, á meðan það vantar raunverulegar aðgerðir sem miða að því að búa svo um hnútana að fólk, og þá sér í lagi konur af því að það segja tölurnar, hrynji ekki út af vinnumarkaði og út úr virkni daglegs lífs af því að það er uppgefið á sál og líkama bara af lífinu. Það er eitthvað brogað við þetta hjá okkur og ég er sannarlega ekki með svörin. En ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að við séum ekki að leggja vinnu í að finna svörin þarna megin á ásnum eins og við ættum að gera alla jafna.