Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðuna. Mig langaði að gera eitt að umtalsefni núna þegar við erum að ræða þessa skýrslu. Fyrir það fyrsta er náttúrlega feikilega verðmætt að fá að ræða þessa skýrslu þegar svona stutt er liðið af kjörtímabilinu og ég ætla að skora á hæstv. ríkisstjórn að taka þessa skýrslu alvarlega. Ég er reyndar ekkert rosalega vongóður um að það verði gert að miklu leyti vegna þess að mér hefur fundist menn skauta svolítið fram hjá því, sumir stjórnarþingmenn a.m.k., hversu alvarleg skýrslan er. En ég ætlaði að vekja máls á einu, því sem Ríkisendurskoðun vekur sérstaka athygli á og er fjallað um í fínum kassa í skýrslunni:

„Ákveðin mismunun er innbyggð í geðheilbrigðiskerfið á Íslandi og ljóst að ekki sitja allir við sama borð. Aðgengi að þjónustu ræðst gjarnan af efnahag, tegund geðvanda og búsetu. Mismunun felst einnig í því að tilteknir hópar lenda á svokölluðu gráu svæði og fá ekki þjónustu við hæfi, m.a. vegna óljósrar ábyrgðar- og kostnaðarskiptingar, skorts á fjármagni, mönnun og úrræðum eða annarra ástæðna.“

Ég fæ ekki betur séð, og er svolítið að kalla eftir því að þingmenn meti það með mér, einhverjir a.m.k., en að þessi kafli segi okkur að mismunun, án þess að við höfum ætlað að byggja kerfið þannig upp, sé bara föst inni í kerfinu. Kerfið er orðið þannig að það systematískt mismunar fólki. Við höfum vitað þetta með búsetuna og örugglega stundum yppt svolítið öxlum yfir því, erfitt að bregðast við því út frá búsetunni. En við erum líka með tegund geðrænna vanda þarna undir, við erum með efnahag, við erum með öll vandamálin sem skapast út af gráu svæðunum og annað. Ég ætlaði bara að fá að spyrja hv. þingmann um það hvort hann sé ekki sammála því að þetta sem Ríkisendurskoðun er að vekja athygli á sé bara að kerfið okkar er uppbyggt þannig (Forseti hringir.) að mismunun er orðin óhjákvæmileg í því á fleiri en einu og fleiri en tveimur og þremur sviðum.