Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og einlæga afstöðu í þessum málum. Þetta er gríðarlega vandasamur málaflokkur. Mér fannst gott að heyra auðsýnda umhyggju hans fyrir börnum sem eru að fást við geðrænar áskoranir af því að ef við ætlum að reyna að byrja einhvers staðar að ná fyrir leka í þessum málaflokki þá væntanlega þurfum við að byrja þar og vinna okkur upp — eða ég veit það ekki. Það sem ég hjó eftir í umræðu hv. þingmanns var að hann fagnar skýrslunni og ég geri það svo sannarlega líka. Þetta er mjög vönduð skýrsla af hálfu Ríkisendurskoðunar sem þó var í vanda með að fanga upplýsingar frá kerfinu. En hvað svo? Biðlistarnir hafi aldrei verið jafn langir og þeir eru núna og eins og sjá má á í skýrslunni þá fer líka hlutfall barna sem metur andlega heilsu sína góða sífellt minnkandi. Maður veltir fyrir sér: Er það vegna þeirra eigin geðrænu áskoranna eða kann að vera að það sé líka vegna þess sem foreldrar eru að fást við, að ef foreldrar fá ekki þjónustu sem leitað er eftir í geðheilbrigðiskerfinu þá eðlilega finni barnið fyrir því? Og það er svo skrýtið, af því að mér er svo tíðrætt um þessa undirliggjandi kerfislægu fordóma gagnvart þessum sjúklingahópi sem eru ekkert endilega meðvitaðir, þeir eru bara þarna, að mér finnst vanta netið. Þegar einhver er að glíma við geðrænar áskoranir þá virðist vera sem það mæti ekkert net og grípi fjölskylduna, grípi börn viðkomandi, foreldra eða systkini. Mig langaði bara aðeins að heyra afstöðu hv. þingmanns til þessa.