Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir ágætisræðu og mér fannst eins og hv. þingmaður væri sammála okkur mörgum hér um að þetta væri raunverulega stórt vandamál sem taka þyrfti á. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það var þáverandi samflokkskona hans, Anna Kolbrún Árnadóttir, sem lagði þetta fram á sínum tíma og samflokksmaður hennar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, talaði um að skýrslan væri áfellisdómur yfir kerfinu okkar. Mig langaði að spyrja hvort þingmaðurinn sé sammála því að hægt sé að nota svo sterk orð að þetta sé áfellisdómur yfir kerfinu okkar.

Hv. þingmaður talaði líka um að við þyrftum að eiga samtal við sérfræðistarfsfólk og fá það með og laga þá manneklu sem er. En telur þingmaðurinn að það verði hægt að gera án þess að boðið verði upp á nám í geðhjúkrun, vegna þess að í mörg ár hefur ekki verið boðið upp á nám í geðhjúkrun? Loks langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann telji að við getum í rauninni gert úrbætur til skemmri tíma, a.m.k. án þess að því fylgi meira fjármagn í málaflokkinn.