Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir svarið. Það er auðvitað hárrétt að aðgangur að þjónustu er mismunandi eftir því hvar fólk býr. Að einhverju leyti getum við aldrei leyst allt en það er mjög margt hægt að gera til að bæta úr. Fjarþjónusta á ýmsum sviðum, þótt það sé ekki nema bara til að koma upplýsingum og ráðgjöf til skila, getur skipt miklu máli. Ég hef átt samtöl, m.a. bara á síðastliðnu ári, við fólk sem er að vinna í félagsþjónustunni í þessum stóru sveitarfélögum, þessum tveimur stærri á Austurlandi, og þar er ákveðinn vandi að það virðist enginn beinlínis hafa það hlutverk að sinna ungmennum með fjölþættan vanda. Það virðist ekki vera skýrt hvort það er t.d. SAk eða teymi hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa þetta skilgreinda hlutverk. Að hluta til vegna þess að þjónustan hjá þessum tveimur er byggð þannig upp að fólkið sem nýtur hennar þarf að vera í ákveðinni nálægð eða ekki of mikilli fjarlægð. En þetta er bara úrlausnarefni sem þarf að fara í að leysa. Það er engin spurning. Það eru sem betur fer sálfræðingar og þeim hefur fjölgað. Ef við horfum yfir tvo síðustu áratugina hafa fleiri sálfræðingar sett sig niður á Austurlandi og þar er samfelldari og betri þjónusta. En það er kannski enginn sem veitir beinlínis meðferð. Það eru þeir sem eru að sinna greiningu og ráðgjöf eins og til skólanna.